145. löggjafarþing — 91. fundur,  18. mars 2016.

menningarminjar o.fl.

606. mál
[14:41]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég tek undir það sem hv. þingmenn hafa sagt á undan mér um mikilvægi þess að hæstv. forsætisráðherra komi í salinn til að svara spurningum sem brenna á okkur alþingismönnum og reyndar almenningi í landinu varðandi fjárhag eiginkonu hæstv. ráðherra og heimilisbókhald hans.

Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sagði hér þegar rætt var um tryggingafélögin og þegar arðgreiðslur til þeirra stóðu til að tryggingafélögin þyrftu að taka þátt í því eins og aðrir í íslensku samfélagi að efla hér traust. Ég vil bara segja, frú forseti, að forsætisráðherra þarf að taka þátt í því eins og aðrir í þessu samfélagi að efla traust eftir hrun. Það umræðuefni sem hér er og upplýsingar hans um fjármál eiginkonu hans og hans heimilis eru ekki til þess fallnar (Forseti hringir.) að auka traust í samfélaginu. Hann þarf að koma hingað, fara yfir þessi mál með okkur og svara spurningum áður en Alþingi fer í tveggja vikna hlé.