145. löggjafarþing — 95. fundur,  8. apr. 2016.

vantraust á ríkisstjórnina, þingrof og nýjar kosningar.

692. mál
[15:59]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það eru um þrjú ár liðin frá því að núverandi stjórnarmeirihluti tók við stjórnartaumum á Íslandi, tók við umboði frá tæplega 100 þús. kjósendum sem treystu okkur fyrir stjórn þessa lands. Á þeim tíma sem liðinn er hefur margt gott gerst, fyrst undir stjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og frá og með deginum í dag verðum við undir stjórn Sigurðar Inga Jóhannssonar. Ég hef þá trú að á næstunni verði eins og síðustu 36 mánuði unnið af kappi við að uppfylla þau loforð og þær væntingar sem við gáfum þjóðinni allri, þá sérstaklega þeim sem treystu okkur fyrir stjórnartaumunum hér, til góðra verka í þágu lands og þjóðar. Það hefur mjög margt áunnist á þeim tíma.

Hér fór fram gríðarlega vel heppnuð skuldaleiðrétting heimilanna sem hefur bætt skuldastöðu heimila, sérstaklega barnafólks og þeirra sem búa einir. Leiðréttingin kom helst þeim að gagni sem hafa miðlungstekjur og minni og hefur gjörbreytt stöðu margra heimila í landinu. Stöðugleiki, eins og verðstöðugleiki, hefur aldrei, eða hugsanlega einu sinni áður í sögu lýðveldisins, verið jafn langvarandi og jafn hagsæll og hann hefur verið þennan tíma.

Verðbólga hefur verið lág. Þrátt fyrir að ýmsir hafi reynt að spilla þeim árangri hefur samt sem áður tekist að hafa hemil á verðbólgu á Íslandi þennan tíma. Á sama tíma hefur jöfnuður í þjóðfélaginu aukist og við heyrum það og sjáum í alþjóðlegum samanburði að jöfnuður er óvíða meiri en á Íslandi. Jöfnuður er það mikill að sumar stéttir á Íslandi hafa sagt að hann sé í raun og veru allt of mikill.

Fram undan eru mörg mál sem við þurfum að ljúka, þar á meðal húsnæðismál. Þau frumvörp og þau mál sem liggja fyrir þar að lútandi munu koma ungu fólki að gagni sem er annaðhvort að kaupa sér í fyrsta sinn eða vill komast í leiguhúsnæði, húsnæðisfrumvörp sem munu koma þeim að gagni sem lakar standa og hafa minnst milli handanna. Það er frumvarpsvinna í gangi sem byggir á störfum Pétursnefndarinnar svokölluðu um endurskoðun almannatryggingakerfisins, sem mun koma öllum þeim sem lakar standa til góða, einfalda kerfið og veita fólki ný tækifæri gegnum starfsgetumat. Við erum líka í miðju kafi við að leysa gjaldeyrishöftin. Sú vinna hefur gengið þannig að við höfum fengið þvílíkar einkunnir frá sérfræðingum í því efni að það hálfa væri nóg. Undir þeim kringumstæðum er ekki hægt að hætta við svo búið. Við erum ekki fólk sem hleypur frá ókláruðu verki bara af því við nennum ekki að hafa þau hangandi yfir hausunum á okkur. Við viljum klára þau verkefni sem okkur var trúað fyrir.

Undanfarið hef ég hitt fullt af fólki, eins og við gerum öll, á förnum vegi, í gegnum samfélagsmiðla og allir hafa sömu óskina sem þeir hafa borið upp: Í öllum bænum ekki hætta að starfa saman, í öllum bænum klárið málin sem þið eruð að vinna að, í öllum bænum klárið þetta kjörtímabil saman.

Kosningar við þessar kringumstæður mundu gjörsamlega rústa öllu sem þetta fólk er að eiga við og það hefur beðið mig lengstra orða að við hættum ekki stjórnarsamstarfinu heldur höldum því áfram og klárum þetta kjörtímabil með — (Gripið fram í.)Mikið af þeim hafa verið framsóknarmenn, hv. þm. Kristján L. Möller, það er svo mikið til af þeim, en það hefur líka verið fólk sem ég veit (Gripið fram í.)til að er í öðrum flokkum. En fyrst Samfylkingin lætur heyra í sér þá verð ég að dást að þeim flokki. Ég dáist svo að þeim flokki, fyrir að þau skuli vera hér í forsvari fyrir því að heimta kosningar, að heimta að kasta sér út í djúpu laugina þó að fyrir neðan það sem þau standa sé næstum ekkert vatn. Þau vilja kasta sér út í djúpu laugina þótt ekkert vatn sé þar. Ég dáist að þeirri staðfestu. (Gripið fram í.)Það er næsta víst að áður en langt um líður þá mun Samfylkingunni bjóðast að stökkva fyrir björg. Sá tími mun koma. En við skulum vera þolinmóð. (Gripið fram í.)

Góðir Íslendingar og hv. þingmenn. Eitt dæmi langar mig að nefna. Ef stefnu fyrrverandi stjórnarflokka hefði verið fylgt á Íslandi síðustu 36 mánuði þá værum við nú á hverju ári að borga 26 milljarða í vexti af erlendum skuldbindingum, sem menn voru fúsir að leggjast undir, og við værum með 208 milljarða í skuld, sem við erum ekki með í dag. Þvert á móti hefur sú leið sem farin var af hálfu þessarar stjórnar haft það í för með sér að ytri staða þessa þjóðfélags og þessa ríkisbúskapar er betri en hún hefur verið í 50 ár. Ætlum við að fórna því með því að fara út í kosningabaráttu og kosningar, sem er ótímabært? Nei. Ætlum við að bregðast því umboði sem okkur var veitt fyrir þremur árum til fjögurra ára af tæplega 100 þús. manns? Nei, við ætlum ekki að gera það. Við ætlum að standa við okkar stefnumál. Við ætlum að klára þau stóru mál sem eru á okkar könnu vegna þess að við álítum, og ég er alveg sannfærður um að þjóðin mun komast að því, að það er engum betur treystandi til þess en núverandi stjórnarmeirihluta að gera það.