145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

tímasetning kosninga.

[13:47]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Fram til þessa hefur nú svolítill hroki einkennt ríkisstjórnina sem hefur farið fyrir völdum síðustu þrjú árin. Það að halda því fram enn og aftur, þrátt fyrir nýja forustu í forsætisráðuneytinu, að enginn geti séð um einhver tiltekin mál nema þessir flokkar, að stöðugleiki verði að vera til staðar til þess að hægt sé að fara í aflandsuppboð — stöðugleikinn er ekki meiri en svo að hér bankar fólk og ber í bumbur úti á Austurvelli reglulega. Það er ekki hægt. Krafan var ekki uppklapp um að halda áfram með ríkisstjórnina heldur vildi fólkið og vill fá kosningar strax. Það er það sem stór hluti þjóðarinnar hefur verið að tala um úti á Austurvelli og fyrir austan, vestan, norðan. Það er mótmælt víðar en á Austurvelli.

Ég verð að segja það, virðulegi forseti, að þrátt fyrir að „strax“ hafi verið teygjanlegt hugtak í huga sumra fulltrúa (Forseti hringir.) ríkisstjórnarinnar þá getum við ekki misskilið þjóðina sem stendur hérna úti dag eftir dag eða hluti (Forseti hringir.) hennar og segir: Við viljum kosningar strax.