145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

aðgerðir gegn lágskattaríkjum.

[14:34]
Horfa

forsætisráðherra (Sigurður Ingi Jóhannsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka ágæta fyrirspurn hv. þingmanns. Eins og hann vitnaði til þá kannaði ég strax á föstudag fyrstu viðbrögð sérfræðinga hér innan lands og þau voru á þann veg að meðal annars vegna jafnræðisrelgu EES-samningsins væri ekki hægt að grípa til sérstakra aðgerða hér á Íslandi. Mér er einnig kunnugt um viðbrögð Eftirlitsstofnunar ESA, hef verið í samskiptum við þá í dag, og það er gleðilegt að það sé ekki tilfellið.

Ég tek undir með hv. þingmanni um mikilvægi þessa. Við ræddum það á þingflokksfundi okkar framsóknarmanna í gær og fólum formanni efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, Frosta Sigurjónssyni, að leiða vinnu flokksins í aðgerðum gegn skattaskjólum. Við teljum það mjög mikilvægt, eins og ég hef sagt, að við séum ekki með löggjöf — sem er sannarlega í dag, var meðal annars sett í tíð fráfarandi ríkisstjórnar, eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir, og leiðbeiningar eru meira að segja á heimasíðu ríkisskattstjóra um það með hvaða hætti skuli unnið.

Ég held að það sé mjög mikilvægt að við hér í þinginu förum yfir það og undir forustu formanns efnahags- og viðskiptanefndar þingsins, Frosta Sigurjónssonar, treystum við okkur til að fara í það. Ég hlustaði einnig á viðtal við ríkisskattstjóra í gær, og það var ein af þeim tillögum sem við ræddum á þingflokksfundinum í gær, að í það minnsta væri hægt að setja löggjöf um ábyrgð þeirra sem ráðleggja slíkt og setja bönkum hér á Íslandi og fjármálafyrirtækjum — hæstv. fjármálaráðherra hefur líka minnst á það, að hægt sé að setja það í samband við eigendastefnu slíkra fyrirtækja; að setja löggjöf og reglur sem gætu þá takmarkað þetta.

Hins vegar er líka ljóst að þetta er alþjóðlegt vandamál sem við þurfum að eiga samskipti um við önnur ríki (Forseti hringir.) eins og við höfum verið að gera, annars vegar með ríkjum OECD, í samstarfi við þau, en ekki síst kannski ríkjum Norðurlandanna eins og ég veit að hv. þingmaður þekkir.