145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:23]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Það er hárrétt sem hún sagði hér að þverpólitísk samstaða er um það að breyta kerfinu í þessum grundvallaratriðum, að leggja af þessi hátt í 40 greiðslukerfi með mismunandi afláttarflokkum. Þetta hefur legið fyrir í mörg ár. Að þessu leytinu til er mjög ánægjulegt að finna þá samstöðu meðal allra flokka um að það sé löngu tímabært að gera slíka grundvallarbreytingu. Hins vegar er það hárrétt sem hv. þingmaður segir hér að engin sátt er um það að jafnhliða þessari breytingu fylgi ekki auknir fjármunir til niðurgreiðslu á hlutdeild sjúklinga í heilbrigðisþjónustu. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir í því efni. Það voru fyrirmælin sem nefndarfólki voru gefin að útfæra breytingar í greiðsluþátttöku á þann veg að ekki væri gert ráð fyrir auknum fjármunum. Það hefur gengið ágætlega með þeim fyrirvara, vil ég þó segja, að það er gríðarlegt verkefni að safna saman gögnum um greiðslur sjúklinga, flækjustigið er mikið. Í því ljósi verður að hafa allan fyrirvara á þeim upplýsingum sem enn er verið að vinna með.

Það er rétt sem hv. þingmaður segir að ef kostnaður er að fara úr böndum væri örugglega hægt að breyta reglugerð um hámarksþátttöku sjúklinga í kerfinu. Það er eðli málsins samkvæmt skynsamlegt að gera það, ef svo færi. En mínar upplýsingar segja að við séum með nokkuð traustan grunn að byggja á undir þær fjárhæðir sem settar eru inn í greinargerðina, en þó með fyrirvara um nákvæmni þeirra upplýsinga sem við erum að vinna með. Að því leyti til er svarið við spurningu hv. þingmanns: Já, það er hægt að aðlaga kerfið, hvort heldur það er upp eða niður, eftir því hvernig útkoman í því er.