145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:26]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er til að svara að gert er ráð fyrir þeim kostnaði sem þarna gæti lent í fjárveitingum heilbrigðisstofnana í dag. Við höfum rætt það í vinnunni að ef nýr kostnaður, sem kann að falla til í þessu á heilbrigðisstofnun, kemur til þá verði að bæta þeim hann upp.

Ég vil undirstrika það hér, af því mér fannst gæta ákveðins misskilnings hjá hv. þingmanni á orðum mínum hér áðan — ef til vill kann að vera að ég hafi ekki komið þessu nægilega vel frá mér — að ég var að fagna samstöðu þvert á flokka um að breyta núverandi greiðslukerfi; hátt í 40 kerfum, algjörlega ógegnsætt, flókið og óréttlátt kerfi. Ég var að fagna því að samstaða væri um að gera atlögu að þeirri breytingu. Ég var alls ekki að lýsa yfir ánægju með það og því síður að einhver samstaða væri í boði um að þessum breytingum fylgdi ekki nýtt fé í kerfið. Ég vil bara undirstrika það við hv. þingmann að ég var ekki að gefa það til kynna.