145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[15:32]
Horfa

Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Að hlífa þeim sem höllustum fæti standa með því að við hin berum byrðarnar, eins og hæstv. ráðherra sagði. Ég er ekki sammála þeirri túlkun hæstv. ráðherra því að það eru ekkert við hin í þessu dæmi. Ef hann væri að tala um skattgreiðendur almennt, samfélagið almennt, sem bæri byrðarnar til að lækka kostnað af þeim sem þurfa mest á heilbrigðisþjónustunni að halda, þá gæti hann talað með þeim hætti. En hann er ekki að tala um það. Hann er að tala um að kostnaðinum er velt yfir á aðra sjúklinga sem þurfa minna á þjónustunni að halda. Heilbrigðiskostnaður tekur ekkert tillit til félagslegra aðstæðna, efnahags, stéttarstöðu, búsetu, aldurs eða heilsufarsástands að öðru leyti á fólki. Heilbrigðiskostnaður fellur einmitt á fólkið. Það getur hver sem er orðið veikur og fólk getur lent misilla í því og þess vegna er ósanngjarnt, hefði ég talið, (Forseti hringir.) að fólk sem á annað borð þarf að leita til heilbrigðisþjónustunnar þurfi að bera kostnað af byrðunum, þurfi að bera byrðarnar með öðrum sjúklingum. Það væri miklu nær að láta þær byrðar dreifast á samfélagið allt.