145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[17:09]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Steinunni Þóru Árnadóttur fyrir þessar spurningar. Það er sannarlega rétt hjá henni að við höfum oft stigið sömu skrefin í hv. velferðarnefnd. Við eigum þar ánægjulegt og gott samstarf. Við erum áhugafólk um landsbyggðina, sálgæsluna og ákall um aukið fé. Ég hef tekið sem dæmi að það vantar líka meira fé í dvalarheimilin og fleiri hluti sem við erum ekki að tala um akkúrat í þessum töluðu orðum.

Varðandi það að hækka skatta segi ég að mér finnst mikilvægast fyrir okkur að við aukum verðmætasköpun í samfélaginu. Það er verkefnið, að auka verðmætasköpun og gera kökuna stærri. Með því móti snýst málið ekki endilega um hvað við tökum stóran hluta af kökunni heldur hvað við fáum mikil verðmæti út úr þeirri köku sem við höfum til skiptanna. Markmiðið er ekki endilega 11% af kökunni. Það getur vel verið að 8% af kökunni verði miklu hærri upphæð en 11% eins og staðan er í dag. Ég vil ekki tala fyrir hækkuðum sköttum vegna þess að ég tel að það séu mikil tækifæri í samfélaginu, í atvinnulífinu, til að auka framleiðsluna og verðmætin. Þannig eigum við að sækja auknar tekjur til að setja í heilbrigðiskerfið. Ég held að það sé það mikilvægasta.