145. löggjafarþing — 96. fundur,  12. apr. 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[18:34]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Fyrst vildi ég geta um það sem hæstv. ráðherra talaði um áðan, samkvæmt OECD-skýrslum um hvar er hægt að finna lönd þar sem þetta er gjaldfrjálst. Ég gerði það að umtalsefni þegar ég talaði um málefni krabbameinssjúklinga fyrr í vetur. Ég tók dæmi sem ég mátti taka, persónulegt dæmi um einstakling sem bjó þar og hefur birt á vef þeirra samtaka sem hann ber fyrir brjósti og hann er í. Þar sagði hann stutt og laggott: Í Frakklandi þurfti ég aldrei að taka upp veskið, aldrei. Hann þurfti aldrei að gera það í krabbameinsmeðferð sinni.

Ég vitnaði áðan í það sem kemur fram í greinargerð með frumvarpinu en þar eru dæmi frá Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Finnlandi. Í Danmörku er almenn heilbrigðisþjónusta gjaldfrjáls en greiða þarf til dæmis fyrir sérfræðiþjónustu ef hún er sótt án tilvísunar. Gott og vel, ég væri alveg til í hafa þetta nákvæmlega eins og þarna er. Þetta eru lönd sem hefur töluvert mikið verið stjórnað af jafnaðarmönnum og byggð upp af jafnaðarmannahugsjóninni. Þetta er það kerfi sem ég vil komast í.

Ég gerði lágtekjufólk að umtalsefni áðan og hæstv. ráðherra svaraði mér að mörgu leyti hvað það varðar og fór inn á að verið sé að búa til eitthvert kerfi og vitnar þá aftur í hið frábæra kerfi, skattkerfi, og upplýsingar sem þar eru. Ég er alveg tilbúinn að segja að það sé fínt ef hægt er að gera þetta þannig að þegar lágtekjufólk, fólk sem er með lægstu laun, þarf á heilbrigðisþjónustu halda komi það upp í tölvunum hjá viðkomandi og þar með verði greiðsluþátttaka minni, eins og mér fannst hæstv. ráðherra vera að tala um með alla þá gjaldflokka sem birtir eru hér sem fylgiskjal með frumvarpinu. En við vitum, virðulegi forseti, að jafnvel og þrátt fyrir það, það er náttúrlega hluti af þeim 6,5 milljörðum sem þarna er verið að greiða, höfum við þingmenn fullt af dæmum, það hafa örugglega allir fengið slík dæmi til sín, um að það er sumu fólki ofviða fólki þegar það er að byrja að koma inn. Það kann vel að vera að þegar það er (Forseti hringir.) orðið staðfest að viðkomandi er langveikur fari hann niður um gjaldflokka, en einhvern veginn þarf (Forseti hringir.) kerfið að taka utan um þetta. (Forseti hringir.) Ég ber sömu von (Forseti hringir.) í brjósti og hæstv. ráðherra um að við getum einhent okkur í að klára þetta mál, vegna þess að þetta er sannarlega skref í rétta átt.