145. löggjafarþing — 97. fundur,  13. apr. 2016.

störf þingsins.

[15:30]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegi forseti. Það er ljóst að uppljóstrun svokallaðra Panama-skjala mun hafa margvíslegar afleiðingar í för með sér, vonandi til góðs fyrir samfélag okkar og víða um heim og það til framtíðar. David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, ákvað að mæta gagnrýni á tengsl sín við skattaskjól með því að birta skattskýrslu sína sex ár aftur í tímann. Í umræðum í breska þinginu sagði hann að hann teldi að forsætisráðherra, fjármálaráðherra og þeir sem gegna sambærilegum hlutverkum fyrir stjórnarandstöðuna ættu að gera skattskýrslur sínar opinberar í framtíðinni. Þetta er athyglisvert sjónarmið og það er nauðsynlegt að ræða hér á landi hvaða upplýsingagjöf við viljum fá frá stjórnmálamönnum, þ.e. meira en núverandi hagsmunaskráning gerir ráð fyrir.

En þær ánægjulegu fréttir hafa borist að fulltrúar skattyfirvalda í 38 ríkjum hafi fundað í París um Panama-skjölin í dag. Þetta er fundur sem hefur haft stuttan aðdraganda. Það er verið að fjalla um aðgerðir vegna þessara uppljóstrana. Fundinn sitja fulltrúi embættis ríkisskattstjóra, skattrannsóknarstjóra og fulltrúi fjármálaráðuneytisins fyrir Íslands hönd. Það er mjög ánægjulegt að heyra. Í dag hefur komið fram að fullur vilji er meðal þessara aðila til að standa saman í baráttunni gegn skattsvikum.

Manni þykir nóg um þá skattbyrði sem lögð er á fólk í þessu landi og augljóslega væri hún miklu lægri, eins og Sjálfstæðisflokkurinn berst fyrir, ef menn væru ekki í stórum stíl að koma sér undan því að axla sínar byrðar gagnvart samfélaginu, fara á svig við skattalög, fá frítt far. Ég á erfitt með að skilja hvaða hugarfar býr hér að baki.


Efnisorð er vísa í ræðuna