145. löggjafarþing — 99. fundur,  18. apr. 2016.

túlkun á fríverslunarsamningi EFTA og Marokkós.

717. mál
[16:13]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Steinunn Þóra Árnadóttir) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. utanríkisráðherra fyrir afar skýrt og afdráttarlaust svar við spurningu minni.

Ég fagna því eindregið að Ísland túlki þennan fríverslunarsamning EFTA og Marokkós á sama hátt og norsk og svissnesk stjórnvöld hafa gert um að hann nái ekki til varnings frá hernumdum landsvæðum Vestur-Sahara.

Ég held að það skipti alveg gríðarlega miklu máli. Ég held að þetta gæti meira að segja skipt auknu máli inn í framtíðina núna því að því miður lítur ástandið í Vestur-Sahara verr út núna þessi missirin en gert hefur í ansi langan tíma með fordæmalausum brottrekstri Marokkóstjórnar á friðargæsluliðum Sameinuðu þjóðanna, sem er auðvitað alveg ótrúlegt og í rauninni alþjóðapólitískt mál sem ætti svo sannarlega skilið umfjöllun eitt og sér, sem mér finnst mikilvægt að nefna í þessu samhengi.

Einmitt út af þessu samhengi er svo mikilvægt að afstaða Íslands liggi alveg ljós fyrir. Það er hins vegar líka ljóst að á liðnum árum, það sést á innflutningsskýrslum, hefur talsverður innflutningur verið á sjávarafurðum frá Marokkó til Íslands. Í ljósi þess að helstu fiskimið Marokkós eru einmitt úti fyrir ströndum Vestur-Sahara þá tel ég mjög mikilvægt næsta skref að kannað verði mjög vel hvort uppruni þeirra afurða sé alveg á hreinu og ég boða það (Forseti hringir.) hér með að ég mun halda áfram að grennslast fyrir um það mál, hvort sem það verður (Forseti hringir.) í búningi fyrirspurna eða þingmála. Ég mun sem sagt fylgja því nánar eftir.