145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[18:13]
Horfa

innanríkisráðherra (Ólöf Nordal) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að ég hafi í ræðu minni áðan haft orð á nauðsyn þess fyrir þingið að fara yfir þessi mál. Það þyrfti að taka umræðuna, mér leiðist samt það orðalag, en það þyrfti að ræða málið frá öllum hliðum og fara í það að meta kosti þess og galla. Til þess er þingleg meðferð mála. Ágætistilefni þessa máls er að ræða það dýpra en við getum gert á stuttum tíma í þinginu í dag, ræða hvernig menn vilja búa um áframhald máls af þessu tagi.

Mér finnst þurfa að leggja áherslu á að með tilkomu stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar skapist annars konar tækifæri til að taka þetta mál á dagskrá. Ég held að vel sé hægt að þróa þá nefnd áfram í þá átt að vera fær um að koma á þessu eftirliti. Þegar allsherjarnefnd tekur þetta mál til meðferðar mundi ég vilja að hún velti því upp hvernig hægt væri að halda áfram að auka við eftirlitið. Mér hefur þótt ágætt þegar nefndir þingsins lýsa skoðunum sínum við framkvæmdarvaldið. Til þess er leikurinn gerður og Alþingi þarf að láta sína rödd heyrast hátt. Ég held líka að það sé áhugavert fyrir þá sem sitja í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að velta því upp hvort menn telji að nefndin geti tekist svona verkefni á hendur. Ég held að full ástæða sé til að fara rækilega yfir það og ítreka það sem ég hef sagt, að til þess að halda áfram að þróa rannsóknir á löggæslu, sem ég hygg að sé alveg hárrétt að er í örri þróun, þurfa menn að vera tilbúnir með rammann svo menn gangi ekki of langt.