145. löggjafarþing — 109. fundur,  10. maí 2016.

lögreglulög.

658. mál
[18:33]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér þykir rétt að skoða það að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd komi að þessu hlutverki að einhverju leyti, hvort sem það er formaður eða varaformaður, undirnefnd eða hvernig sem því er háttað. Ég held að þetta séu fullkomlega lögmætar áhyggjur sem hv. þingmaður hefur og alveg sjálfsagt að „adressa“ þær. Mér finnst hins vegar ekki „absúrd teater“, verð ég að segja, að samþykkja frumvarp sem er til bóta fyrir réttindi borgaranna bara vegna þess að ekki sé allt tryggt í sambandi við þingmenn og aðra leiðtoga líka þótt að það sé auðvitað mikilvægt út af fyrir sig.

Það sem ég sé í þessu frumvarpi snýst aðallega um samskipti borgaranna við yfirvöld. Mér finnst mikilvægast að tryggja það fyrst vegna þess að ég hygg reyndar að það mundi líka í það minnsta aðstoða við það að hindra hleranir á borð við þær sem hv. þingmaður var að nefna. Með því að setja þetta inn í eitthvert ferli hygg ég að þeir sem standa í slíku þurfi þá að ganga út fyrir það ef þeir ætla að stunda eitthvað slíkt. Það að ætla að fara að hlera stjórnmálamenn hygg ég að sé miklu auðveldara þegar enginn rammi er til staðar.

Hvort þessi nefnd geti tekist á við hleranir á stjórnmálamönnum, ég sé það ekki. Ég get alveg verið sammála hv. þingmanni um það að þessi nefnd komi líklega ekki til með að gera það, en ég hygg hins vegar að hún muni hafa áhrif á verklag og þannig gæti það óbeint aðstoðað við það. En ég ítreka að ég er alveg sammála hv. þingmanni um að full ástæða er til að kanna það hvort þetta eigi ekki heima hjá stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd sama hvernig það verður útfært í smáatriðum. Það er ekki endilega aðalatriðið finnst mér, en mér finnst aðalatriðið hérna vera réttindi borgaranna gagnvart yfirvöldum, ekki þingmanna.