145. löggjafarþing — 111. fundur,  17. maí 2016.

strandveiðar.

[13:55]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Við erum alltaf að tala um mjög takmarkaða auðlind í sjálfu sér. Í dag eru 700–800 strandveiðileyfi, ef ég man rétt, 700–800 aðilar sem mega sækja þessi 9 þús. tonn sem eru til skiptanna. Meðan við erum við með takmarkaða auðlind, það þekkjum við bara úr sjávarútveginum í heild, er erfitt að finna leið sem telst sanngjörn fyrir alla eða leið sem allir verða sáttir við. Hins vegar er mikilvægt að við horfum á þetta þannig að strandveiðikerfið geri þá það sem það átti að gera í upphafi, að styrkja byggð og styrkja þá einmitt byggðafestuna, að aflinn sé helst unninn sem næst þeim stað þar sem honum er landað þannig að meira fáist fyrir hann í byggðarlaginu, að við fáum sem mest út úr þessum afla, að gæðin séu mikil o.s.frv. Það er það sem þurfum kannski einna helst að skoða í þessu öllu saman og þá um leið að sjálfsögðu hvernig þetta nýtist um allt land þannig að byggðirnar hringinn í kringum landið fái notið góðs af þessu kerfi.