145. löggjafarþing — 122. fundur,  31. maí 2016.

meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

789. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. atvinnuvn. (Jón Gunnarsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég flyt hér tillögu til þingsályktunar um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006.

Alþingi ályktar, með vísan til 5. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, að á fiskveiðiárinu 2016/2017 skuli því aflamagni sem dregið er frá heildarafla í hverri tegund skv. 3. mgr. 8. gr. laganna varið til að mæta áföllum skv. 1. tölulið 1. mgr. 10. gr., til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölulið 1. mgr. 10. gr., til línuívilnunar skv. 8. mgr. 11. gr., til strandveiða skv. 6. gr. a, til veiða sem eru taldar í 6. gr. og til annarra tímabundinna ráðstafana samkvæmt lögunum með þeim hætti sem hér segir: Allt að 9.000 tonnum til strandveiða; allt að 2.000 tonnum til rækju- og skelbóta; allt að 6.500 tonnum til stuðnings byggðarlögum; allt að 5.700 tonnum til aflamarks Byggðastofnunar; allt að 5.700 tonnum til línuívilnunar; allt að 300 tonnum til frístundaveiða; allt að 125 tonnum til áframeldis á þorski; allt að 1.000 tonnum verði lögð til hliðar til sérstakra tímabundinna ráðstafana.

Í greinargerð segir:

„Samkvæmt 3. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða skal ráðstafa 5,3% af leyfilegum heildarafla til sérstakra atvinnu- og byggðaráðstafana. Í 5. mgr. sömu greinar er kveðið á um að verja skuli aflamagni sem dregið er frá heildarafla til að mæta áföllum skv. 1. tölulið 1. mgr. 10. gr. laganna, til stuðnings byggðarlögum skv. 2. tölulið 1. mgr. 10. gr. laganna, til línuívilnunar skv. 8. mgr. 11. gr. laganna, til strandveiða skv. 6. gr. a laganna, til veiða skv. 6. gr. laganna og til annarra tímabundinna ráðstafana samkvæmt lögunum.

Á síðasta löggjafarþingi var samþykkt þingsályktun nr. 15/144, um áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla skv. 5. mgr. 8. gr. laga um stjórn fiskveiða, nr. 116/2006. Hún gildir fyrir fiskveiðiárið 2015/2016. Nú er að nýju lagt til að heimildunum verði ráðstafað til eins fiskveiðiárs.

Samkvæmt ályktun nr. 15/144 voru aflaheimildir úr almenna byggðakvótanum færðar í aflamark Byggðastofnunar. Þetta var gert í ljósi skýrslu Vífils Karlssonar þar sem fram kom að vænta mætti meiri byggðafestuáhrifa með því móti þar sem báðum úrræðum væri beitt. Sá annmarki var á rannsókninni að eingöngu voru skoðaðir þeir staðir sem eru með samning um sértækan byggðakvóta Byggðastofnunar en ekki athuguð áhrif almenna byggðakvótans eða annarra atvinnu- og byggðaráðstafana annars staðar. Vonir eru bundnar við aflamark Byggðastofnunar og meiri jákvæðni er til þess verkefnis og langtímahugsunar þess.

Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra gerði samning við Rannsókna- og þróunarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) um greiningu á byggðafestuáhrifum þeirra atvinnu- og byggðaráðstafana sem lög um stjórn fiskveiða kveða á um. Vífill Karlsson, hagfræðingur og dósent við HA, og Hjalti Jóhannesson, landfræðingur og sérfræðingur hjá RHA, skiluðu lokaskýrslu 23. febrúar 2016 sem ber heitið Skýrsla um ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla og áhrif þess á byggðafestu. Samkvæmt skýrslu RHA er niðurstaðan af þeirri aðhvarfsgreiningu sem beitt var sú að almenni byggðakvótinn er talinn skila mestum byggðafestuáhrifum af þeim aðgerðum sem lengst hefur verið beitt en línuívilnun og strandveiðar eru til skiptis í öðru og þriðja sæti eftir því hvaða aðferð er beitt en skelbætur voru taldar sístar til að ná fram ætluðum byggðafestuáhrifum.

Áfram verður unnið með málið á grundvelli þeirra úttekta sem fram hafa farið en eins og áður segir er nú lögð til ráðstöfun fyrir næsta fiskveiðiár. Að þessari niðurstöðu fenginni er talið rétt að gera ekki viðamiklar breytingar milli ára. Kristján L. Möller og Lilja Rafney Magnúsdóttir lýsa ekki efnislega stuðningi við tillöguna en gera ekki athugasemdir við að nefndin flytji hana og að hún komist á dagskrá. Þau áskilja sér rétt til að flytja breytingartillögu við málið í kjölfar umfjöllunar nefndarinnar.“ Síðan koma í þessari þingsályktunartillögu nánari skýringar á einstökum liðum tillögunnar sem ég tel ekki rétt að lengja mál mitt með hér og nú.

Virðulegi forseti. Nefndin hefur fjallað um þetta mál í vetur. Við erum svo sem öll sammála um að á þessu kerfi þurfi að gera breytingar til framtíðar litið. Sú skýrsla sem hér er vitnað til getur vart talist fullnægjandi gagnvart þeim hluta sem er kallaður pottur Byggðastofnunar og byggist það fyrst og fremst á því hversu skammt er síðan til þeirra ráðstafana var gripið. En eins og fram kemur, í þeirri greinargerð sem ég las hér áðan, eru vonir bundnar við að það sé fýsileg leið til þess að nýta þessi ákvæði til að treysta enn frekar byggð á viðkvæmum stöðum.

Það vekur þó vissulega athygli að fyrstu niðurstöður gefa ekki vísbendingu um það og þegar skýrslan er rýnd vekur athygli að þær ráðstafanir sem verið hafa við lýði á undanförnum árum virðast hafa skilað nokkuð góðum árangri, þ.e. byggðapotturinn og línuívilnun, eitthvað sem er búið að vera í gangi mjög lengi, virðast vera að skila nokkuð öflugum árangri þegar mælt er út frá byggðafestuáhrifum aðgerðanna. Það er jú markmiðið með þessu, að treysta byggðafestu þar sem þessum aðgerðum er beitt. Samstaða er um það í nefndinni að það þurfi að endurskoða þetta mál á næsta þingi. Þess vegna leggjum við til að þetta verði bara til eins árs í senn þó að í lögunum sé kveðið á um að þetta sé til sex ára en skuli endurskoðast að minnsta kosti innan þriggja ára. Sú vinna sem við lögðum af stað með í vetur gaf ekki þann árangur sem við höfðum lagt upp með í fyrra. Það er greinilegt að við þurfum meiri tíma til að meta áhrifin af þessu og móta okkur stefnu til lengri tíma. Öll skref sem stigin verða til breytinga á því fyrirkomulagi sem verið hefur munu hafa áhrif á stöðunum. Menn hafa aðlagað sig ákveðnum þáttum í þessu kerfi og því er ekki mjög auðvelt að gera á því róttækar breytingar. Menn verða frekar að laga kerfið að einhverjum breytingum til lengri tíma að mínu mati. Við getum til að mynda horft á atriði eins og strandveiðar sem eru hluti af þessu fyrirkomulagi; hvaða afleiðingar það mundi hafa ef þær yrðu teknar burtu á einni nóttu, bæði fyrir þá sem þær stunda og þau byggðarlög sem byggja að hluta til á þessu.

Við leggjum sem sagt upp með það að næsta vetur verði lagst í enn frekari vinnu í þessum efnum og reynt að rýna í það hvort við getum náð betri árangri á þessum vettvangi.