145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

útlendingar.

728. mál
[15:39]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þingmenn Pírata munu sitja hjá eins og aðrir sem hafa hér tjáð sig varðandi breytingartillöguna um gildistímann. Mig langaði svo mikið að leggja áherslu á það, eins og kom fram í atkvæðaskýringu þegar við vorum hér með þetta í 2. umr., að þingmannanefndin haldi áfram störfum með eftirfylgni til þess að hægt sé að taka á móti ábendingum ef það er meinbugur á framkvæmd laganna.

Ég hef starfað mikið með innflytjendum og flóttamönnum og ég verð að segja að það skortir verulega á í samfélaginu að tekið sé á þessum málum af mannúð. Það sem mér finnst gott við vinnuna sem átt hefur sér stað í þinginu og við drög að þessum lögum og gerð laganna er að ég upplifi anda mannúðar. Við náðum ekki öllu sem við vildum sem viljum fara eins langt og hægt er til að sýna (Forseti hringir.) mannúð í lögum og verki, en við erum komin ansi nálægt því og því vil ég óska þingheimi og öllum þeim sem hafa tekið þátt í þessu starfi til hamingju.