145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

húsnæðisbætur.

407. mál
[15:45]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Frú forseti. Við erum að gera fjórða húsnæðisfrumvarp hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra að lögum og ég óska henni til hamingju með það. Á síðasta kjörtímabili var mörkuð sú stefna að búa til eitt kerfi húsnæðisbóta í stað vaxtabóta og húsaleigubóta. Nú erum við að stíga skref í þá átt að auka stuðning við leigjendur þó að hann nái ekki enn að verða jafn stæður vaxtabótum. Við erum þar að auki að stíga mikilvægt skref þar sem við skyldum sveitarfélögin til sérstaks húsnæðisstuðnings og er mjög mikilvægt að það félagslega réttlætismál gildi um alla íbúa landsins, að þeir eigi rétt á slíkum stuðningi frá sveitarfélögum sínum.

Að lokum þakka ég hv. þm. Elsu Láru Arnardóttur sem var framsögumaður málsins, sem og frumvarps um almennar íbúðir, fyrir að hafa verið vakin og sofin síðustu mánuði yfir þessum málum. Kærar þakkir og kærar þakkir til velferðarnefndar fyrir gott samstarf.