145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

sjúkratryggingar.

676. mál
[16:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon þarf nú lítið að kenna krötum um sögu tilvísunarkerfisins og hversu erfitt það er að koma því í gegn. Ég tel að sú niðurstaða sem liggur fyrir sé mjög góð og það er hægt að byggja ofan á hana. Því kem ég hér upp að við vorum ekki öll sammála því þegar þetta mál kom fyrst inn hvort það væri á vetur setjandi. Ég ætla að rifja upp 1. umr. málsins þar sem ég tók algjörlega af skarið að því er mig varðaði og sagði að ég sæi í þessu frumvarpi kerfi sem væri svo sannarlega hægt að nota og ég væri ánægður með frumvarpið og sérstaklega lýsti ég því yfir að hæstv. heilbrigðisráðherra ætti hrós skilið fyrir að leggja í það að koma inn með tilvísunarkerfi. Ég og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon höfum slegist fyrir því með einum eða öðrum hætti áratugum saman. Ég tel að það sé algjört lykilatriði til að koma böndum á kostnaðinn í heilbrigðiskerfinu og það er að gerast með þessu. Ég sagði upphaflega að í reynd væri kerfið sem hæstv. ráðherra væri að koma með mjög gott, það þyrfti aðeins að leiðrétta í því ýmsar innri skekkjur og síðan þyrfti það sem stjórnarandstöðunni hefur tekist fyrir mikinn dugnað og lipurð og líka fyrir vilja hæstv. heilbrigðisráðherra; meiri pening í kerfið. Ég klykkti út þá með því að segja, eins og ég ætla að gera núna, að síðan þegar ný ríkisstjórn og vinsamlegri þeim sem minna mega sín í þessu samfélagi tekur við völdum, væntanlega eftir næstu kosningar, er vel hægt að nota þetta kerfi og halda áfram á þeirri braut sem stjórnarandstöðunni í samvinnu við hæstv. heilbrigðisráðherra hefur tekist í vinnu málsins í nefndinni, þ.e. að koma með enn meiri peninga í þetta, vegna þess að ramminn sem upp er teiknaður er eins og gamall krati hefði getað gert það sjálfur. Þá er ég ekki aðeins að vísa í sjálfan mig heldur einn af forverum hæstv. heilbrigðisráðherra, Sighvat Björgvinsson. (Forseti hringir.) Kerfið er nefnilega býsna gott sem er að finna í (Forseti hringir.) frumvarpinu og þetta gengur allt saman mjög upp. Ég vil þakka félögum mínum í stjórnarandstöðunni (Forseti hringir.) sem sitja í nefndinni, ekki síst (Forseti hringir.) hv. þingmanni og flokkssystur minni, (Forseti hringir.) Sigríði Ingibjörgu, fyrir þeirra starf, en hæstv. (Forseti hringir.) ráðherra á líka þakkir skildar (Forseti hringir.) og hrós fyrir skilning (Forseti hringir.) á málinu og (Forseti hringir.) samstarfslipurð.