145. löggjafarþing — 125. fundur,  2. júní 2016.

lýðháskólar.

17. mál
[16:41]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Líneik Anna Sævarsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um tillögu til þingsályktunar um lýðháskóla.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið til sín gesti og farið yfir umsagnir sem bárust.

Með þingsályktunartillögunni er lagt til að lýðháskólar verði viðurkenndir að lögum sem valkostur í íslensku menntakerfi og litið verði til fyrirkomulags starfsemi lýðháskóla annars staðar á Norðurlöndunum sem fyrirmyndar.

Nefndin telur aukna fjölbreytni við val á menntaleiðum á Íslandi til bóta. Við umfjöllun nefndarinnar komu fram sjónarmið um að hugmyndin að baki lýðháskólanum búi yfir hugsjón og starfsháttum sem skortir í íslenskt skólakerfi. Lýðháskólar hafa reynst vel á Norðurlöndunum, og í Danmörku sækir stór hluti nemenda nám í lýðháskólum á einhverjum tímapunkti skólagöngu.

Á Seyðisfirði er starfræktur listrænn lýðháskóli undir merkjum LungA. Hann hóf starfsemi árið 2014 og er eini lýðháskóli landsins. Annars staðar á Norðurlöndunum eru lýðháskólar hins vegar rótgróinn hluti menntakerfisins og árlega sækja nokkrir tugir íslenskra nemenda nám þangað. Nefndin telur að með því að greiða leið lýðháskóla í íslenskt menntakerfi geti skapast tækifæri til uppbyggingar slíkrar skólastarfsemi sem hafi jákvæð áhrif til langs tíma litið og geti eflt almenna lífsleikni ungmenna, skapað nemendum tækifæri til að finna sínar sterku hliðar og bætt þannig náms- og starfsfærni sem aftur skilaði sér inn í hið hefðbundna skólakerfi. Nefndin telur mikilvægt að rétt sé búið um hnúta og lagaumgjörð sniðin utan um lýðháskóla sem setji faglegan ramma um það nám sem þar fer fram, gæðaviðmið og samspil við aðra þætti í menntakerfinu.

Nefndin áréttar að hugtakið lýðháskóli er þekkt í íslensku og þrátt fyrir að þar sé ekki um háskólanám að ræða ætti orðið sem slíkt ekki að valda misskilningi. Þó að lýðháskólahefðin byggist fremur á að efla færni nemandans en að skila honum sérstökum starfsréttindum eða réttindum til frekara náms telur nefndin ekki útilokað að einstakir framhaldsskólar gætu skapað umgjörð um lýðháskóla við hlið línulegs námsframboðs. Þessi atriði telur nefndin vera meðal þeirra sem eðlilegt væri að taka til frekari skoðunar við vinnu ráðuneytisins í samræmi við þingsályktunartillöguna.

Nefndin leggur til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeirri einu breytingu að í stað ártalsins 2016 í tillögugreininni komi 2017, enda gerir tillagan ráð fyrir að lagt verði fram frumvarp eigi síðar en á vorþingi 2016 sem nú er liðið þannig að því er frestað um ár.

Eins og áður sagði leggur nefndin til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeirri einu breytingu.

Undir álitið skrifa Unnur Brá Konráðsdóttir formaður, Líneik Anna Sævarsdóttir framsögumaður, Guðmundur Steingrímsson, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Haraldur Einarsson, Helgi Hrafn Gunnarsson, Jóhanna María Sigmundsdóttir, Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir og Vilhjálmur Árnason.