145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[18:17]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þessi fyrirspurn var svo efnisrík að ég þyrfti heila ræðu til að svara henni til fulls. Þetta er nokkurt umhugsunarefni því að ef ég skil aðferðafræðina í nýju frumvarpi rétt er gert ráð fyrir að lán fari upp í fulla framfærslu, það verði lánað til fullrar framfærslu, en að bætur telji með upp í það þak. Vissulega verður lánsfjárhæðin minni. Sú staða sem er í dag er ekki heldur alveg að fullu æskileg, þ.e. að til viðbótar við lán komi bætur að öllu leyti, og getur líka valdið því að það verði beinlínis ákjósanlegt að vera í námi og fólk upplifi ákveðið sjokk við að fara af námslánum. Þarna þarf að finna skynsamlegt jafnvægi. En eins og ég sé þetta munu bæturnar telja með upp í framfærsluna.

Það er alveg gefið mál, og ég þekki nokkur dæmi þess, að fólk hefur fengið greiðslumat til kaupa á íbúðum á undanförnum árum miðað við tilteknar forsendur í vaxtabótakerfi sem svo hafi ekki staðist. Þegar ríkisstjórnin stærir sig af því að vaxtabætur lækki þá er það ekki vegna leiðréttingarinnar, það er vegna hækkandi húsnæðisverðs, vegna þess að fólk fær kauphækkanir sem allir aðrir eru að fá og viðmiðunarfjárhæðir hafa ekki verið verðbættar.

Ef þetta bætist við hef ég af því allnokkrar áhyggjur. Mér finnst svolítið verið að einkavæða félagslega aðstoð ef það er orðið þannig að leiðin til þess að fyrstu íbúðarkaupendur t.d. fái fullnægjandi stuðning sé sú að þeir borgi fyrir hann sjálfir með séreignarsparnaði, sem er undanskilinn aðför og var t.d. gríðarleg stoð fyrir fólk (Forseti hringir.) í hruninu að eiga aðgang að, hef ég af því þungar áhyggjur.