145. löggjafarþing — 133. fundur,  16. ág. 2016.

námslán og námsstyrkir.

794. mál
[20:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við höldum áfram umræðu um frumvarp til laga um námslán og námsstyrki. Vel menntað fólk er nauðsynlegt í nútímasamfélagi og einhver mikilvægasti þáttur í því að samfélög geti lifað við velmegun. Það er því mikilvægt að allir hafi tækifæri til að mennta sig óháð efnahag, t.d. óháð því hvort þeir eigi efnaða foreldra. Í þessu frumvarpi til laga sem við ræðum í dag segir í 1. gr. að markmiðið sé „að tryggja þeim sem falla undir lög þessi tækifæri til náms án tillits til efnahags“. Ég hef fylgst með, hlustað á og tekið þátt í andsvörum í umræðunni um málið hér í dag og eftir því sem umræðunni vindur fram efast ég í raun meira og meira um að frumvarpið nái þessu markmiði. Ég ætla að fara yfir það í ræðu minni hvað ég tel varhugavert og nefna einnig atriði sem ég tel ansi brýnt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd skoði í vinnu sinni.

Ég hef nefnilega áhyggjur af því að með frumvarpinu, verði það að lögum, sé verið að færa námslánakerfið fjær hinu félagslega hlutverki þar sem aðstæður fólks til náms eru jafnaðar. Þá þykir mér mikilvægt að segja að jöfnuður er ekki það þegar ríkið borgar öllum jafnt. Jöfnuður er hins vegar það þegar ríkið kemur að því að bæta fólki upp aðstöðumun og jafna þannig tækifæri fólks. Jöfnuður felst í því að fólk hafi sömu tækifæri burt séð frá hinum ýmsu félagslegu aðstæðum.

Í frumvarpinu er lagt til að allir námsmenn fái greiddan námsstyrk. Það má í raun segja að það sé þá gert án tillits til þess til að mynda hvort fólk hafi þurft lán eða þurfi frekari lán sér til framfærslu, en vextir á lán til þeirra sem þurfa á námslánum að halda munu hins vegar hækka úr 1% í 2,5% plús álag, eða í 3%. Að auki fara lánin strax að safna vöxtum en ekki eins og er núna þegar námsmaður lýkur námi sínu. Þá á að hverfa frá tekjutengingu lána og stytta endurgreiðslutímann. Ég ætla að fara yfir þetta allt aðeins betur.

Á það hefur verið minnst að með því að hverfa frá tekjutengingunni sé hætt við því að það hafi áhrif á námsval fólks því að það er jú þannig að við þurfum sem samfélag nauðsynlega á fólki með margs konar menntun að halda, við þurfum líka á fólki að halda sem fer í störf sem eru okkur samfélagslega mikilvæg þó svo að þess sjái ekki endilega stað í launagreiðslunum. Auðvitað hlýtur það að hafa áhrif þegar endurgreiðslur lánanna eru ekki tengdar við tekjurnar, þá hlýtur fólk að hugsa sig tvisvar um og velja frekar nám sem skilar sér í betri launum. Þetta er eitt af því sem ég tel afar mikilvægt að hugað verði að, hver hin samfélagslegu áhrif hreinlega verða. Þá á einnig að stytta endurgreiðslutímann og gera það þannig að greiðslubyrðin hjá þeim sem fara síðar á lífsleiðinni í nám verður hærri en hjá þeim sem fara yngri í nám. Ég hef líka áhyggjur af því og í rauninni af þessu tvennu sem ég hef nefnt, ekki hvað síst þegar kemur að stöðu kynjanna og hef áhyggjur af því að hér halli á konur. Ég ætla að fara betur yfir það.

Að mínu viti hefur það verið mikill kostur við íslenskt samfélag að fólk hefur getað breytt stöðu sinni með því að fara í nám. Fólk sem hefur snemma á lífsleiðinni flosnað upp úr námi af einhverjum ástæðum hefur getað tekið upp þráðinn að nýju seinna. Nú þegar er búið að takmarka aðgengi þeirra sem eru 25 ára og eldri að framhaldsskólunum og með þessu frumvarpi tel ég að verið sé að gera þeim sem eldri eru erfiðara að fara í háskólanám, alla vega þeim sem þurfa á lánum að halda. Ég held að það sé ekki gott fyrir samfélag sem þarf á vel menntuðu fólki að halda. Ég held að þetta sé ekki gott fyrir samfélag sem er að eldast, þar sem meðalaldur er að hækka, fólk er hresst lengur og í raun ekki skrýtið að það vilji söðla um og breyta til síðar á lífsleiðinni. Ég held að við þurfum að taka tillit til þess að fólk vilji geta farið í nám síðar. Ég hef ekki síst áhyggjur af því að þetta hafi slæm áhrif á eða geri stöðu kynjanna ójafna. Ég kom inn á það áðan að ekki á lengur að tekjutengja greiðslurnar og t.d. hefur verið minnst á það að umönnunarstéttirnar sem við vitum jú öll að verður skortur á starfsfólki í, er þegar orðinn og verður enn meiri í náinni framtíð, eru oft kvennastéttir og þetta eru svo sannarlega ekki hálaunastéttir þó svo að maður voni auðvitað að launin eigi eftir að hækka. Hér óttast ég að greiðslubyrðin verði erfið og að hún lendi aðallega á konum.

Svo er það hitt að konur í námi, samkvæmt þeim tölum sem hreinlega koma fram í greinargerðinni sem fylgir með frumvarpinu, eru eldri. Hér segir, með leyfi forseta: „Á skólaárinu 2014–2015 eru 62% lántaka konur og eru 13% þeirra yfir 35 ára aldri.“ 86 konur eru eldri en 50 ára. Karlar eru hins vegar ekki nema 38% þeirra sem eru í námi, þar eru 8% yfir 35 ára aldri og ekki nema 27 karlar eldri en 50 ára sem eru í námi.

Þess vegna hlýtur það að hafa ólík áhrif á kynin ef draga á úr endurgreiðslutímanum. Ég hef sagt það í andsvörum að ég telji gríðarlega mikilvægt að hv. allsherjar- og menntamálanefnd rýni þetta frumvarp og láti greina það alveg sérstaklega með tilliti til áhrifanna sem það hefur á stöðu kynjanna.

Það eru fleiri þættir sem þarf að greina í frumvarpinu. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir talaði fyrr í kvöld um að það þurfi að skoða það með tilliti til byggðasjónarmiða og hvernig það komi ólíkt við námsmenn sem koma af landsbyggðinni og þá sem koma frá höfuðborgarsvæðinu og má örugglega telja upp fleiri atriði sem þarf að greina frumvarpið eftir.

Í framsöguræðu sinni fór hæstv. ráðherra yfir helstu þættina í frumvarpinu og taldi þar upp atriði sem hv. allsherjar- og menntamálanefnd ætti að taka sérstaklega til skoðunar, atriði sem hafa komið fram í umsögnum meðan málið var til kynningar hjá ráðuneytinu og hann lýsti sig reiðubúinn til að taka til athugunar. Mér finnst reyndar út af fyrir sig gott að hæstv. ráðherra segi strax í upphafi að hann sé til í að skoða þessi atriði. Þetta voru reyndar atriði sem leiddu að frestun á endurgreiðslu og hvort þar ætti að gefa rýmri tímamörk og hins vegar um það hvort breyta ætti tímanum á lánum til þeirra sem stunda doktorsnám. Ég held að þetta sé í sjálfu sér alveg ágætt og geti verið til bóta en ég held samt að þetta séu ekki veigamestu atriðin í frumvarpinu og ekki það sem stærstu máli skiptir þegar kemur að því að tryggja tækifæri allra til náms óháð efnahag. Þó svo að ég vilji alls ekki gera lítið úr þessum atriðum þá held ég bara að önnur atriði skipti meira máli.

Líkt og ég sagði náum við ekki fram jöfnuði í samfélaginu með því að láta alla hafa sömu upphæðina heldur gerum við það með því að skapa öllum jöfn tækifæri í samfélaginu. Ég er ansi hrædd um að við munum ekki gera það með þessu frumvarpi. Ég tel að hv. þingnefndar (Forseti hringir.) bíði því ansi mikil vinna og jafnvel breytingavinna til þess að ég alla vega verði tilbúin til að styðja málið.