145. löggjafarþing — 139. fundur,  24. ág. 2016.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Róbert Marshall (Bf):

Virðulegur forseti. Sú staða sem uppi er í þinginu er auðvitað háðugleg fyrir stjórnarflokkana vegna þess að það hefur legið fyrir frá því í vor að þetta yrði gert með þessum hætti. Ríkisstjórninni, stjórnarflokkunum, hefur verið það í lófa lagið í allnokkuð langan tíma að undirbúa sín mál inn í þingið þannig að þetta mundi allt saman renna eðlilega. Það hefur auðvitað komið í ljós að það er sama kæruleysið og lausatökin í þeim efnum eins og í öllu sem þessi ríkisstjórn hefur tekið sér fyrir hendur. Það er ekkert tilbúið, þess vegna er tómarúm í störfum þingsins. Það sem við verðum vitni hér eru fyrst og síðast skeytasendingar á milli ráðherra Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg ljóst að sú veiðiferð sem stjórnarflokkarnir ætluðu að leggja í á þessum þingdögum í sumarlok er fyrir löngu búin. Það er komin ástæða til að skvetta vatni á eldinn og kalla á hundana. Það fiskast ekkert meira í þessum túr. Það er alveg klárt mál.

Það hefði verið eðlilegt að stjórnarmeirihlutinn hefði hlustað á stjórnarandstöðuna síðastliðið vor sem sagði að það yrði að fara í kosningar strax. Þá sögðu menn að það væru svo mörg stórmál sem þyrfti að klára fyrst. Hvar eru þau? Einu meldingarnar sem við höfum fengið frá formanni Framsóknarflokksins eru að það sé mikilvægt að stjórnarandstaðan þvælist ekki fyrir þingstörfunum. Svo sannarlega verður ekki sagt um hann að hann þvælist fyrir þingstörfunum. Hann sést ekki hér í húsinu, er ekki í neinni þingnefnd og er á launum hjá almenningi við það væntanlega að reyna að passa sína eigin stöðu í eigin flokki sem er orðin nokkuð brokkgeng.

Það væri farsælast fyrir okkur að ganga til kosninga, rjúfa þing og segja bara: Nú á að kosningabaráttan að hefjast, hættum þessari vitleysu. Þau stóru mál sem bíða afgreiðslu eru þess (Forseti hringir.) eðlis, t.d. búvörusamningar, að það er fullkomlega eðlilegt (Forseti hringir.) að bera framhald þeirra mála undir kjósendur í landinu. Af hverju vilja menn ekki gera það?