145. löggjafarþing — 140. fundur,  25. ág. 2016.

uppboðsleið í stað veiðigjalda.

[11:53]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Oddnýju Harðardóttur þessa sérstöku umræðu um uppboðsleið í stað veiðigjalda um leið og ég get verið sammála þeim sjónarmiðum að jafna þeim tekjum sem við höfum af auðlindinni, og auðlindum almennt í eigu þjóðarinnar, þannig að sveitarfélögin njóti á jafnræðisgrundvelli og að sátt ríki, sem er mikilvægt, í samfélaginu um skiptingu arðsins af þessum sameiginlegu auðlindum. Margir vitna gjarnan í að hagsmunir almennings séu hafðir að leiðarljósi. Á móti er talað um hagsmuni stórútgerðar sem endurspeglar mögulega þá stöðu sem umræðan er í.

Þess vegna fagna ég að sjálfsögðu þessari umræðu. Þetta er svolítil af-eða-á-umræða, hún hefur verið föst í klisjum og hagsmunir andstæðir. Staðreyndin er sú að það fyrirkomulag sem við höfum þróað og er við lýði hefur skilað okkur meiri nýtingu, aukinni framleiðni og arðbærari atvinnugrein, ekki bara í samanburði við aðrar atvinnugreinar hérlendis heldur í samanburði við þessa atvinnugrein víðar í heiminum.

Við erum stöðugt að leita leiða til að auka framleiðni, nýta hráefnin og fá þannig hærra verð fyrir framleiðsluþættina sem eru undir við úrvinnslu hráefna og náttúruauðlindina, vinnuafl og fjárfestingar í framleiðslutækjum. Við skulum ekki gleyma því hver staðan var með of stóran fiskiskipaflota, litla framleiðni og óarðbæra atvinnugrein. Varla yrði mikil samfélagsleg sátt um að borga með greininni ef sú staða yrði uppi.

Við eigum að stíga varlega til jarðar án þess að varpa fyrir róða því ábatasama og arðbæra kerfi sem við höfum þó byggt upp.