145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:08]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er mikill stuðningsmaður samkeppni. En mér finnst engin samkeppni, eðlileg samkeppni í því að íslenskir bændur þurfi að keppa við niðurgreiddan og tollverndaðan landbúnað í Evrópu sem flytur hingað inn þá tollfrjálst. Það er ekki eðlileg samkeppni. Það má flytja alla þessa osta inn. Þeir eru bara tollaðir. Mér finnst það eðlilegt að þegar við flytjum inn vörur sem eru niðurgreiddar frá Evrópu að við jöfnum samkeppnina á milli þeirrar vöru og íslensku framleiðslunnar. Það skiptir máli.

Við erum og höfum verið í mikilli hagræðingu í landbúnaði. Kúabúum hefur fækkað um hvað, úr 1.800 í 600 á mjög fáum árum. Það er mikil hagræðing. Þetta þarf að gerast í skrefum. Við getum ekki tekið risastökk og lagt þessa atvinnugrein í hættu. Við getum ekki leyft okkur neitt glapræði í því. Stutt skref í einu, látum þetta þróast, aukum jafnt og þétt hagræðinguna þannig að menn geti staðist betur samkeppnina. Við getum þá lækkað tollana og samkeppnin verður eðlilegri. Það er miklu betra að nálgast þetta með þeim hætti. Ég geri mér hins vegar alveg grein fyrir því að vel má vera að í þessum búvörusamningi séu mörg atriði sem við ættum að ræða hvort skynsamlegt sé að gera nákvæmlega svona eða öðruvísi. En hvað þessi prinsipp varðar, atvinnugreinin er mikilvæg. Mikilvægt er að hér sé byggð um allt land. Býlin eru hluti af innviðum landsins. Þetta er líka öryggismál í öllum ferðamannaiðnaðinum. Við getum ekki leyft okkur að taka einhverjar ákvarðanir sem geti fellt þessa atvinnugrein eða gert henni enn erfiðara fyrir en nú er.