145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[17:11]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta atvinnuvn. (Björt Ólafsdóttir) (Bf) (andsvar):

Já, nú segi ég það í annað skipti að ég tel eðlilegt, því að ég held að hv. þingmaður hafi kannski ekki heyrt í mér áðan, að styðja við landbúnaðinn. En ég geri kröfu um frjálsa samkeppni á þeim markaði. Mér finnst það einboðið þegar við styrkjum einhvern. Við getum ekki haft tvöfalt meðlag hérna. Það er ekki einu sinni gott fyrir iðnaðinn sjálfan. Hv. þm. Brynjar Níelsson telur forræðishyggju við neytendur eðlilega, að það eigi að segja þeim hvort þeir megi kaupa þennan ost eða hinn eða borga meira fyrir hann, fyrir erlenda ostinn, sætta sig þá bara frekar við þann innlenda sem er allt annar ostur. Ég tel það ekki eðlilegt. Mér finnst að það megi vera val og ég tel íslenskan landbúnað fyllilega geta staðið undir samanburðinum. Ég hef enga trú á því að við hættum að kaupa íslenskar landbúnaðarafurðir. Þær eru margar hverjar dásamlegar. Það mun halda áfram. Ég ítreka að mér finnst vantrúin á íslenskum landbúnaði ótrúleg í þessum sal.