145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:39]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S):

Virðulegi forseti. Í upphafi ræðu minnar, þar sem fjallað er um búvörulög og þær nauðsynlegu breytingar á búvörulögum sem gera þarf til að staðfesta samning sem nefndur er búvörusamningur, ætla ég að frábiðja mér þær góðu óskir sem hv. þm. Árni Páll Árnason sendi mér um að ganga í björg hjá Framsóknarflokknum. Það verður seint, kannski á efsta degi í lífi mínu. (ÖS: Þú ert húskarl þar.) Sömuleiðis voru þessi frýjunarorð hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar óþörf.

Ég hef á fyrri stigum lýst ákveðnum efasemdum um búvörusamninga. Ég hef lýst því að sú vegferð sem lagt var upp í kringum árið 1940 til dagsins í dag hefur ekki skilað þeim árangri sem óskhyggja hefur ætlað þessum samningum. Niðurgreiðslur á landbúnaðarafurðir, eða beingreiðslur eins og þær heita, út á framleitt magn hafa ekki skilað þeim árangri sem til er ætlast.

Ég hef leyft mér að horfa á þetta mál út frá öðrum miðum en aðrir þingmenn. Það hefur enginn í þessari yfirferð nefnt afkomu bænda. Í þessu máli liggja ekki fyrir neinar tölulegar upplýsingar um afkomu bænda eftir greinum. Það hefur heldur enginn nefnt stærðir landbúnaðar í þjóðhagsreikningum utan þess sem ég gerði eitt sinn í ræðu, en samkvæmt mínu mati og minni skoðun á þjóðhagsreikningum er vinnsluvirði þessara tveggja höfuðgreina, alla vega sauðfjárræktar, næstum því núll. Það sem sauðfjárræktin hefur í tekjur upp í fastan kostnað og vinnulaun er nánast það sem kemur úr beingreiðslu. Það getur engin atvinnugrein lifað með þeim hætti til lengdar. Það getur heldur engin atvinnugrein lifað til lengdar í vernduðu umhverfi, algjörlega vernduð fyrir allri samkeppni, enda er fjöldinn allur af vörum sem eru staðkvæmdarvörur landbúnaðarafurða sem meintar samkeppnishömlur taka ekki til og hafa leitt til þess að neysluvenjur til þjóðarinnar hafa breyst á undanförnum árum.

Við reiknum með því í þeim samningi sem liggur undir að hann leiði til þess að greiddir verði 12 milljarðar á ári til sauðfjárræktar og mjólkurframleiðslu. 12 milljarðar er býsna há upphæð. Það er u.þ.b. 0,5% af landsframleiðslu. Þetta eru næstum þær tekjur sem deilt er um að séu of lágar nú þegar í skattlagningu á aflagjöldum í sjávarútvegi. Þetta eru gríðarlega háar greiðslur. Það sem farið hefur afskaplega í taugarnar á mér í þessu máli er að þessum háu greiðslum er deilt út án þess að vitað sé hver verður hagur móttakanda í málinu. Stærstu styrkveitingar síðustu aldar held ég að hafi verið svokölluð Marshall-aðstoð. Íslendingar eiga ekki heimsmet í styrkjum þótt ýmsir vilji eiga heimsmet á ýmsum sviðum, en í Marshall-aðstoðinni, sem hófst 1947 getum við sagt og stóð 6. áratuginn að einhverju leyti, var það ein af grundvallarkröfum veitenda aðstoðar að færðir yrðu þjóðhagsreikningar í Evrópu þannig að menn vissu hvernig staða mála væri hjá móttakendum. Ég held að allir hafi orðið að uppfylla það skilyrði nema Íslendingar, þeir fengu endalausa traktorsbætur sem voru þá hluti af framleiðslustyrkjum þess tíma. Íslenskur landbúnaður fór í gegnum heila Marshall-aðstoð en ekki dugði það til þess að viðhalda byggð á brothættum svæðum.

Sá svæðisbundni styrkur sem hér er talað um getur hugsanlega frestað ákveðinni þróun en hann getur ekki komið í veg fyrir hana. Það er ósk flestra sem hér eiga sæti, held ég, að viðhalda byggð í öllu landinu. Það er líka mín ósk að viðhalda byggð í landinu. En því miður hef ég orðið vitni að því í mínu lífi að það er ekki alltaf hægt. Til dæmis var ekki hægt að bjarga þeirri byggð þar sem foreldrar mínir fæddust og ólust upp. Það kann að vera að það séu einhvers staðar brothætt svæði. Einhvers staðar hef ég lesið að Byggðastofnun hafi skilgreint brothætt svæði þar sem u.þ.b. 1% íbúa búa. Það kann að vera að þau bresti.

Á þeim árum sem svokallaðar beingreiðslur hafa átt sér stað hafa menn haft það að markmiði að viðhalda byggð í landinu. Hvernig hefur það gengið? Jú, það hefur gengið með þeim hætti að framleiðendum mjólkur hefur fækkað úr 1.700 úr 700. Markmiðið um dreifða byggð hefur því ekki haldist þar. Afkoma í sauðfjárrækt hefur, eftir þeim tölum sem ég hef skoðað, ekki verið með þeim hætti að það sé til að hrósa sér af.

Ég lít svo á að þessi samningur sé til þriggja ára. Á þeim þremur árum sem fram undan eru þarf að skera upp. Það þarf að leggja fyrir Alþingi betur undirbúið plagg en það sem lagt var hér fram í upphafi þessa máls í frumvarpsformi, þar sem t.d. kemur fram hver afkoman er í greinunum. Hverja er verið að styrkja? Njóta einhverjir ofurstyrkja? Eru þar einhverjir sem ekki er á vetur setjandi? Hvernig munu kynslóðaskipti ganga? Hvað þarf til þess að kynslóðaskipti gangi á sauðfjárbúi? Ég ítreka að það kemur á óvart hversu litlar upplýsingar liggja fyrir í þessu máli.

Ég tel að nauðsynlegt sé að tryggja að aðrar greinar sem byggja að einhverju leyti á aðföngum á afurðum landbúnaðar þurfi ekki að taka þátt í þessu beingreiðsluframlagi. Hægt er að kaupa ýmsar afurðir til iðnaðar á heimsmarkaðsverði, en sælgætisframleiðsla, framleiðsla á súkkulaði og ís, hefur orðið að greiða það öðru verði. Það gengur náttúrlega ekki. Ég hélt í barnaskap mínum að það sem gerðist hér árið 1970 þegar Ísland gekk í EFTA — þá voru allir tollar á hráefni til iðnaðar felldir niður. Ég tel að tryggja verði hag þeirra greina sem virðast hafa setið eftir með einhverjum hætti. Það er nefnilega ekkert eins einfalt eins og að framleiða súkkulaði. Þessar greinar starfa hér í verulegri samkeppni við erlendar greinar og það er allt í lagi, þær hafa bara dafnað vel. Það er einfaldlega þannig að samkeppni skilar sér í bættum hag neytenda. Sú atvinnugrein sem býr við ofurvernd er dæmd til að tapa því að það er alltaf til einhver staðkvæmd þar sem greinin tapar.

Ég vænti þess að á þeim þremur árum sem í hönd fara verði tekið á ýmsu því sem ég hef orðað hér, t.d. eins og því hvað verið er að styrkja og eins hvaða framtíðarsýn íslenskur landbúnaður hefur. Mér hefur stundum fundist íslenskur landbúnaður hafa þá framtíðarsýn að horfa í baksýnisspegil. Það er nú hin dapra framtíðarsýn sem ég sé. Það gengur náttúrlega ekki. Hér hafa orðið neyslubreytingar og ekki verður barist gegn neyslubreytingum þar sem fólk á frjálst val. Íslendingar fara til útlanda, dvelja í útlöndum. Þar kynnast Íslendingar annarri fæðu og hafa nú komið bara nokkuð heilbrigðir heim. Ég tel að íslenskur landbúnaður þurfi að takast á við það sem er að gerast í löndunum í kringum okkur.

Og þó að það sé utan þessa efnis ætla ég ósköp einfaldlega að segja að markmiðið með þeim tollasamningi sem hér kemur til umræðu hugsanlega síðar í dag eða á morgun, tollasamningur um landbúnaðarafurðir frá Evrópusambandinu, er að skila þeim ábata til neytenda í staðinn fyrir að vera hirtur upp af ríkissjóði ellegar smásöluverslun.

Í þessari ræðu minni ætla ég að undirstrika að ég tel að við séum ekki að fara hér yfir á þriðja kjörtímabil, við séum fyrst og fremst að framlengja þann búvörusamning sem í gildi hefur verið, með smávægilegum breytingum, í þrjú ár og sá tími verði notaður til þess að skera þetta kerfi upp. Menn hafa hrósað sér af því sem gert var 1992 eftir að niðurgreiðslukerfi 50 ára þar á undan var komið á heljarþröm, en ég tel að það kerfi sé jafnvel komið að endamörkum sínum í dag.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja mál mitt. Ég tel ég hafi komið sjónarmiðum mínum á framfæri. Ég óska þess að hver sú vinnufæra hönd í þessu landi sjái einhvern arð af starfi sínu en að standi ekki í uppgjöf í dagslok.