145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[18:54]
Horfa

Vilhjálmur Bjarnason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst nú leitt að hv. þm. Össur Skarphéðinsson hafi ekki skynjað nein viðhorf í ræðu minni. Ég ætti þá að endurtaka ræðu mína og athuga hvort hann skilji hana í annarri umferð.

Ég tel að Alþingi geti undir engum kringumstæðum framselt neitt vald til Bændasamtakanna, það liggur náttúrlega alveg í augum uppi. Ef vafi er á þá eru þó dómstólar í þessu landi og þeir geta úrskurðað ef svo ber undir. Það eru hér vilyrði um að þessi samningur verði endurskoðaður. Það er sömuleiðis fjárveitingavald þings á hverju ári sem þarf til þess að fullnusta þennan samning. Þetta er viljayfirlýsing með þessum tímapunkti til þriggja ára. Ég ætla að treysta því að þingmenn virði það. Það er oft og tíðum þannig að ég hef ekki hugmyndaflug til þess að sjá í gegnum alla þá smáskekla sem einhverjir kunna að sjá. Ef vilji næsta þings er sá að halda þessu óbreyttu verð ég að láta það yfir mig ganga. En atvinnugreinin sjálf mun ekki hafa ávinning af því að það verður hér áframhaldandi hnignun ef menn taka ekki á. Það er þannig að ég fer um sveitir lands á sumrin og hef farið víða. Mér finnst mörgu fara aftur í sveitum landsins. Ég held að þessi samningur, sem er óbreytt framlenging á því sem hefur gerst frá 1992, bæti ekki úr því sem var að gerast í hinum dreifðu byggðum, því miður.