145. löggjafarþing — 142. fundur,  30. ág. 2016.

búvörulög o.fl.

680. mál
[19:22]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég tek undir það að vitundarvakning er víða um heim. Við erum ekki eyland að velta fyrir okkur einhverjum spurningum varðandi sýklalyfjanotkun eða eiturefnanotkun. En hún er þó gríðarlega mikil og miklum mun meiri en við gerum okkur grein fyrir. Ef við höfum rænu á að lesa utan á umbúðir er óheyrilega mikið af alls konar efnum sem eru okkur ekki holl, hvort sem það eru litarefni eða einhver önnur innihaldsefni sem við horfum, held ég, daglega fram hjá en viljum síður neyta. En það breytir því ekki að við getum gert betur hér heima einmitt í ljósi þess hversu smá við erum og að við erum eyland. Ég tek undir það líka að mér finnst ótrúlega sérstakt hvað það hefur gengið illa að markaðssetja íslenskar afurðir út frá hreinleika, sérstaklega lambakjöt, skyrafurðir og guð má vita hvað. Þetta er í einhverju míníformi. Við höfum verið með aðila hér á launum við að markaðssetja slíka vöru í áratugi. Einhvern veginn gengur þetta hægar en skyldi.

Svo er hitt auðvitað sem þarf að gerast hér heima, þ.e. að ná, eins og ég sagði áðan, túristunum til að nýta meira af þessum íslensku afurðum. Þá þarf kannski ekki bara bændur, bændur þurfa auðvitað að standa sig í þessu líka, en fyrst og fremst þarf ferðaþjónustan að taka sig saman um það með bændum; hvað getum við gert og hvernig gerum við það best?

Svo varðandi loftslagsmálin, ég kem kannski betur inn á það á eftir, sem er einmitt ein af stóru ástæðunum fyrir því að við horfum ekki í gegnum fingur okkar með það sem kemur fram í áliti meiri hlutans.