145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

stjórn fiskveiða.

863. mál
[12:25]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Fyrst um uppboðsleiðina sem er til umræðu. Ég er ekki talsmaður uppboðsleiðar en er opin fyrir því að skoða möguleika á því að bjóða upp tegundir eins og makríl. Það er tegund sem er að koma hingað inn í landhelgina sem væri hægt að bjóða upp og láta reyna á hvernig það kæmi út. Varðandi uppboð á hluta af því sem hefur verið í dag í félagslegum potti, þessum 5,3%, þá mundi mér hugnast betur að það væri þar öflugur leigupottur ríkisins sem tæki mið af afurðaverði og rekstrarkostnaði þeirra smærri útgerða sem þar ættu hlut. Ég veit ekki hvort það kæmi endilega vel út að menn færu að bítast mikið um það, að það mundi verða það stór pottur að það mundi myndast einhver eðlileg samkeppni og annað í þeim dúr. Ég held að það væri ekki endilega það skynsamlegasta í þeim efnum, en maður á aldrei að segja aldrei. Ég ætla ekki að loka á neitt í þeim efnum því að ég held að líka skipti máli skilgreiningar og girðingar á útgerðarstærðum og öðru sem koma þar við sögu. Það skiptir máli hvernig útfærslan yrði.

Ég hef sagt um veiðigjöldin að þessi ríkisstjórn hefur lækkað flatt á alla og skýlt sér á bak við það að hún væri að lækka á minni útgerðir. Núna sjáum við að stærstu uppsjávarútgerðirnar borga miklu minna veiðigjald en minni bátar á sömu veiðum. Er það eðlilegt? (Forseti hringir.) Ég held það ætti að skoða möguleikana (Forseti hringir.) á að hafa einhvers konar þrepaskiptingu eins og er í skattkerfinu hjá okkur (Forseti hringir.) gagnvart mismunandi útgerðarflokkum.