145. löggjafarþing — 149. fundur,  8. sept. 2016.

almannatryggingar o.fl.

857. mál
[12:43]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Af því að hv. þm. Ragnheiður Ríkharðsdóttir spurði mig um jöfnuðurinn og réttlætið í þessu kerfi þá tel ég lítið sjást til þess í þar, enda sagði ég sérstaklega að ég fagnaði því að reyna ætti að komast út úr þeirri stöðu.

Ég talaði áðan um að ráðstöfunarfé fólks væri um 70 þús. kr. Það var rangt hjá mér, frú forseti. Ég ætla að leiðrétta það, það er 58.529 þús. kr.

En af því að þetta hefur mikið verið gagnrýnt og margir hafa verið ósáttir við þetta, sem eðlilegt er, verðum við bara að segja það beinum orðum: það hefur enginn treyst sér til þess að breyta þessu því að það er kostnaðarsamt. Þar hefur hnífurinn staðið í kúnni. Þess vegna fagnaði ég því að nú ætti að stíga skref til að breyta því. Það verður ekki einfalt. En ef við byrjum ekki á að reyna að leysa verkefnið þá leysum við það auðvitað ekki. Ég fagna því þess vegna og þakka hæstv. ráðherra fyrir að hafa komið með þessa tillögu inn í frumvarpið.