145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[13:45]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P):

Forseti. Það verður að viðurkennast að ég er svolítið ringluð yfir vinnubrögðum við skýrsluna eða ritgerðina sem var unnin af „meiri hluta fjárlaganefndar“. Þetta er ekki þingskjal, bara hv. þm. Guðlaugur Þór (Gripið fram í: Þórðarson.) Þórðarson og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, þau virðast vera framsögumenn og forgöngumenn og talsmenn, en aðallega hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. Það var búið að fjalla formlega um þann anga málsins þar sem ætla mátti að misbrestur hefði orðið á í stjórnsýslu, í viðeigandi nefnd sem er stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd. Þar skilaði hv. þm. Brynjar Níelsson áliti sem er hluti af þingmálaskrá þingsins. Í hans áliti kemur fram að ekkert vafasamt hafi átt sér stað.

Mér finnst þetta hið furðulegasta mál, forseti, í alla staði. Kannski fæ ég einhver svör hér. Kannski svara hv. þingmenn úr fjárlaganefnd okkur þingmönnum sem finnst þetta mál í alla staði skringilegt. Það væri ákaflega gagnlegt að heyra í öðrum þingmönnum úr meiri hluta fjárlaganefndar um þátttöku þeirra í þessu verki. Það er furðulegt, ef þetta er gert í umboði nefndarinnar, að minni hlutinn sé ekkert upplýstur fyrir blaðamannafund í gær um inntak skýrslu sem sett er fram í nafni fastanefndar Alþingis. Mér finnst makalaust að hvorki fyrrverandi fjármálaráðherra og annar varaformaður fjárlaganefndar, hv. þm. Oddný Harðardóttir, hafi verið upplýst um þetta né hafi þingmenn í minni hluta nefndarinnar fengið tækifæri til að kynna sér þessa skýrslu eða ritgerð áður en blaðamannafundurinn var haldinn.

Síðan kemur fram í fréttum í dag, með leyfi forseta:

„Aðspurður út í hvort skýrslan sé opinbert gagn og verði birt eins og önnur þingskjöl segir Guðlaugur að enn eigi eftir að meta næstu skref og hvernig farveg skýrslan verði sett í. Helgi Bernódusson, skrifstofustjóri Alþingis, segir við mbl.is að til að skjöl frá þingnefndum séu birt þurfi þau að fara í gegnum nefndina.“

Ég verð að segja, forseti, að þetta eru alveg ótrúlega (Forseti hringir.) furðuleg vinnubrögð og þingið setur niður við þetta. Það verður að segjast eins og er.


Efnisorð er vísa í ræðuna