145. löggjafarþing — 151. fundur,  13. sept. 2016.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla að fjalla um mál sem hefur verið mér hugleikið um skeið og tengist þingsályktunartillögu sem ég flutti og var samþykkt árið 2014 þar sem Alþingi fól hæstv. utanríkisráðherra að beita sér á alþjóðavettvangi fyrir því að sjálfsákvörðunarréttur íbúa Vestur-Sahara væri virtur í samræmi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna. Í gær kynnti embætti lögsögumanns Evrópusambandsins álitsgerð sína í afar veigamiklu máli sem liggur fyrir Evrópudómstólnum og varðar það hvort viðskiptasamningar Evrópusambandsins og Marokkós geti náð til hernumdra svæða í Vestur-Sahara, t.d. vegna fiskafurða og fisks sem veiddur er í lögsögu hins hernumda lands. Í stuttu máli sagt var niðurstaða lögsögumannsins að svo væri ekki. Þetta mál er ekki bindandi fyrir dómstólinn en er talið munu hafa mjög mikil áhrif á niðurstöðu málsins. Það er risastórt hagsmunamál fyrir hina hernumdu þjóð að yfirlýst verði að Vestur-Sahara teljist ekki hluti af Marokkó samkvæmt samkomulaginu.

Í álitsgerðinni er sérstaklega vitnað til orða hæstv. utanríkisráðherra, Lilju Daggar Alfreðsdóttur, í sölum Alþingis þann 18. apríl sl., þar sem hún svaraði fyrirspurn minni um túlkun á því hvort fríverslunarsamningur EFTA við Marokkó næði líka til Vestur-Sahara. Svar hæstv. ráðherra var einfalt og afdráttarlaust nei.

Það er afar gleðilegt að sjá með beinum hætti dæmi um þingmál, fyrirspurnir og umræður á Alþingi sem hafa bein, jákvæð áhrif á gang mála erlendis. Þetta mál er líka góð áminning um að við Íslendingar getum með jákvæðum hætti lagt okkar lóð á vogarskálar frelsis og lýðræðis (Forseti hringir.) þótt í fjarlægum löndum sé. Vonandi sjáum við meira af svona málum sem við getum þokað áfram.


Tengd mál

Efnisorð er vísa í ræðuna