145. löggjafarþing — 154. fundur,  20. sept. 2016.

rekstrarumhverfi fjölmiðla.

[14:25]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Fyrir 25 árum afnámum við virðisaukaskatt af bókaútgáfu á Íslandi til að tryggja að áfram yrði öflug bókaútgáfa á íslenskri tungu. Nú spyr ég menntamálaráðherra hvort rekstrarumhverfi fjölmiðla á Íslandi sé orðið svo slæmt að nú sé ástæða til að afnema virðisaukaskatt á fjölmiðlun til að tryggja áfram öfluga fjölmiðlun á íslenskri tungu.

Ég spyr vegna ákalls frá einkareknum ljósvakamiðlum en líka vegna þess að ég hef á síðustu vikum lesið nokkra tugi ársreikninga fjölmiðlafyrirtækja á Íslandi og það er skemmst frá því að segja að þar eru fá gleðiefni. Vandinn er sannarlega ekki bundinn við einkarekna ljósvakamiðla heldur nær líka til dagblaða, sömuleiðis til nýgróðursins í fjölmiðlum, öflugra netmiðla sem hafa verið að ryðja sér til rúms og líka til Ríkisútvarpsins sem allt þetta kjörtímabili hefur átt við mikinn vanda að stríða.

Sterkir fjölmiðlar eru hornsteinn lýðræðis og sjálfstæðir fjölmiðlar eru besta vopn okkar í baráttu við spillingu. Það er þess vegna grundvallaratriði að rekstrarskilyrði fjölmiðla séu almennt góð. Þeir eru líka mikilvægur liður í menningarlífi landsins, í því að þeir miðla okkur því sem við eigum sameiginlegt á okkar eigin tungu. Það er þess vegna áhyggjuefni ef afkoma þar er léleg, tap viðvarandi á fjölda fyrirtækja, ef laun þar eru orðin léleg, starfsaldur stuttur, starfsöryggi lítið og fyrirtækin háðari eigendum sínum og auglýsendum en góðu hófi gegnir.

Þess vegna kalla ég eftir svörum menntamálaráðherra um til hvaða ráðstafana stjórnvöld geta gripið til að bæta almennt rekstrarskilyrði í fjölmiðlum, ekki bara einkarekinna ljósvakamiðla heldur líka Ríkisútvarpsins, líka nýju netmiðlanna, líka gömlu dagblaðanna, almennt rekstrarskilyrði í fjölmiðlum vegna þess að við erum hér ekki að horfa á séríslenskan vanda þótt það verði alltaf sérstakt viðfangsefni að halda úti öflugri fjölmiðlun í málsamfélagi sem telur aðeins 0,3 milljónir manna, heldur er þetta alþjóðlegt verkefni í því að hér er tækniþróunin að gera íslenskum fyrirtækjum erfiðara fyrir í samkeppni. Auglýsingamarkaðurinn er að minnka, stór alþjóðleg fyrirtæki eins og Google og Facebook eru að koma hér inn á auglýsingamarkaðinn. Þau fyrirtæki borga ekki sömu skatta og verið er að leggja á íslensku fyrirtækin, sem eru þó að reyna að halda úti fjölmiðlun á okkar eigin tungumáli. Við hljótum að þurfa að spyrja okkur: Ætlum við að skattleggja harðar og meira fyrirtæki á netinu sem eru að reyna að halda úti íslensku efni heldur en við treystum okkur til að skattleggja alþjóðlegu risana?

Sömuleiðis er það þróunin um allan heim að vilji neytenda til að greiða fyrir efni fer minnkandi. Þess vegna er auðvitað líka að þrengja að fjölmiðlum. Þá er hin pólitíska spurning: Ætlum við bara að láta þrengja að fjölmiðlunum, bæði í auglýsingatekjum og í áskriftartekjum, og horfa upp á þá veikjast eða ætlum við að grípa til ráðstafana? Ætlum við þá að grípa til almennra ráðstafana, eins og almennra skattaráðstafana, þess að fella niður virðisaukaskattinn eða annarra slíkra ráðstafana, eða telja menn kannski betra að nota styrkjaleiðina? Menn hafa annars staðar á Norðurlöndunum t.d. styrkt fjölmiðla í ákveðnum byggðarlögum, styrkt af menningarpólitískum ástæðum tiltekna fjölmiðla, styrkt sérstaklega rannsóknarblaðamennsku. Gæti ráðherrann séð fyrir sér að við styrktum rannsóknarblaðamennsku t.d. með einhverjum svipuðum hætti og við höfum listamannalaun í landinu, ákveðum einfaldlega að verja ákveðnum fjármunum til þess að hópur manna geti starfað sjálfstætt að list sinni en með sama hætti þá skapað skilyrði fyrir einhvern hóp blaðamanna til að starfa sjálfstætt að rannsóknarverkefnum á hverjum tíma, styrkja sérstaklega íslenskt efni í sjónvarpi eða með öðrum hætti styðja við en í gegnum skattumhverfið?