145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:37]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil fá að taka undir með hv. þm. Ólínu Kjerúlf Þorvarðardóttur sem sagði áðan að þetta væri valdníðsla sem hefði orðið að hefð hérna. Þetta er ósiður. Það sem mér finnst líka leiðinlegt núna og sérstaklega leitt er að við í stjórnarandstöðunni ákváðum að breyta því hvernig við nálguðumst hlutina og þinglokin með því að horfa bara á málin og vinna þau eins vel og við getum í gegnum þingið, fara ekki í að taka mál í gíslingu til að reyna að búa okkur til samningsstöðu og kalla eftir samtali, sem er hefðbundna aðferðin. Hvað fáum við fyrir það? Algera þögn. Núna er kominn 29. september, dagurinn sem auglýstur er á forsíðu í fréttayfirliti þingsins sem lokadagur þingsins í starfsáætlun. Við heyrum ekkert í forustumönnum (Forseti hringir.) ríkisstjórnarflokka. Þetta er ekki boðlegt. Er það í alvöru þannig að verið sé að kalla eftir því að við tökum upp vinnubrögðin þar sem við reynum að skapa okkur samningsstöðu með málþófi í þinginu? Við höfum engan áhuga á því. En það er það sem er verið að biðja okkur um að gera með þessari þögn.