145. löggjafarþing — 160. fundur,  29. sept. 2016.

starfsáætlun og framhald þingstarfa.

[13:58]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegi forseti. Mig langar að leggja mitt af mörkum til að fræða fólk á pöllunum um hvað er í gangi. Ég geri athugasemdir við það að við notum orðið málþóf um það sem er í gangi hérna, það er ekki málþóf. Ástæðan fyrir því að við komum upp hvað eftir annað er sú að við erum ósátt, við fáum engin svör. Við vitum ekkert hvað gerist í næstu viku. Ef það fengjust svör núna værum við ekki að koma hérna upp. Við komum upp undir liðnum um fundarstjórn forseta vegna þess að við erum ósátt við fundarstjórn forseta og það er okkar réttur. Það er ekki málþóf.

Svo er það alltaf einkenni á því þegar þinglok blasa við að það er svo mikið af málum sem við erum að ræða, eins og samgönguáætlun sem er rosalega stórt mál. Það er ekkert óeðlilegt að 17 þingmenn vilji tala um samgöngumál. Það tekur mjög langan tíma. Það eru svona 20, 30 mál hérna núna sem eru þannig að það eru jafnvel 15, 20 þingmenn sem vilja tala um þau öll. Nú geta menn reiknað. Við höfum bara svo og svo mikinn tíma. Við náum aldrei að leyfa 15–20 þingmönnum að tala í öllum þessum málum, (Forseti hringir.) það er enginn að tala um neitt málþóf. Það þarf að semja. Þingmenn þurfa að gefa frá sér þann rétt (Forseti hringir.) að tala í þessum málum (Forseti hringir.) og um þetta (Forseti hringir.) þarf að fara fram samtal. (Forseti hringir.) Það er enginn að tala um málþóf eða neitt svoleiðis, en þetta samtal fer ekki fram.