146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[14:17]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til þess að koma á framfæri ábendingu til efnahags- og viðskiptanefndar og vonast til þess að nefndin geti tekið hana til skoðunar á milli 2. og 3. umr., að bæta við einum aðila. Hér er verið að leggja til að dómarar hjá dómstólum, þeim sem við almennt í daglegu tali tölum um sem dómstóla, séu undir kjararáði. Ég vil hins vegar benda á að við erum með fleiri dómstóla, þar með talið Félagsdóm, sem ég teldi eðlilegt að heyrði undir kjararáð.

Það hafa komið fram ábendingar frá GRECO varðandi sjálfstæði og gagnsæi Félagsdóms. Ég er þeirrar skoðunar að eitt af því sem þyrfti að lagfæra til þess að tryggja sjálfstæði þess dóms sé að laun dómara hjá Félagsdómi séu ekki ákveðin beint af ráðherra eins og er nú. Það væri eðlilegt að ákvarðanir hvað það varðar væru líka teknar af kjararáði, alveg eins og hér er verið að leggja til breytingar sem snúa að einni stærstu úrskurðarnefnd Stjórnarráðsins, úrskurðarnefnd velferðarmála. Ég held að við öll sem höfum komið að vinnumarkaðsmálunum þekkjum mjög vel hversu þungir og veigamiklir þeir dómar eru sem falla í Félagsdómi og þar af leiðandi væri eðlilegt að setja þann dóm undir kjararáð líka.