146. löggjafarþing — 7. fundur,  20. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[15:12]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Mig langar að lesa upp punkt frá Félagi eldri borgara í Reykjavík um kjararáð annars vegar og hins vegar ákvarðanir um kjör eldri borgara. Það á líka við um öryrkja af því að þeir hafa ekki fengið sitt afturvirkt, nema síður sé, það vantar eina 17 milljarða hjá eldri borgurum þar sem ákvarðanir hafa verið teknar á fjárlögum frá hruninu. Jú, jú, það stendur vissulega að ákvarðanir eigi að taka mið af launaþróuninni og vera í samræmi við vísitölu neysluverðs, en á þessum fjárlögum ætlum við ekki að gera það svoleiðis. Það eru 17 milljarðar uppsafnaðir hjá eldri borgurum. Ég þekki ekki töluna hjá öryrkjum, en miðað við fjöldann ættu þetta að vera 7–8 milljarðar.

Við þingmenn vorum að fá póst þar sem segir, með leyfi forseta:

„Ágæti alþingismaður. Í tilefni umræðu um kjararáð á þingi nú í þessu. „Lög um kjararáð“. Kjararáð skal ætíð taka tillit til almennrar þróunar kjaramála á vinnumarkaði.“

Svo ég komi aðeins inn í hérna þá er þetta ákvæðið sem á að veikja, eins og það stendur í núverandi lögum, ef það frumvarp sem við ræðum verður samþykkt óbreytt. Svo heldur bréfið áfram:

„Lög um almannatryggingar. Bætur almannatrygginga skulu breytast árlega í samræmi við fjárlög hverju sinni. Ákvörðun þeirra skal taka mið af launaþróun, þó þannig að þær hækki aldrei minna en verðlag samkvæmt vísitölu neysluverðs. Hver er munurinn í prósentum?“

Þetta er kannski eitthvað sem nefndin ætti að skoða og líka í samræmi við það að kjararáð í Noregi, er mér sagt, tekur tillit til launa öryrkja og aldraðra sem vissulega geta ekki samið um kaup sitt og kjör. Ef það væri að einhverju leyti tengt við kaup og kjör þingmanna og annarra þjóðkjörinna fulltrúa og valdafólks fengjum við kannski að sjá hækkun sem væri ekki ítrekað felld niður, eins og hefur verið gert með öryrkja og eldri borgara.