146. löggjafarþing — 9. fundur,  21. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[15:05]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Það er sameiginleg afstaða þingflokks Samfylkingarinnar að það sé rétt að jafna lífeyrisréttindi milli opinbera og almenna vinnumarkaðarins. Því miður hefur málið þó sem hér um ræðir ekki verið nægilega vel unnið og það sést best á þeim ólíka skilningi sem aðilar hafa á því hvort frumvarpið uppfyllir yfir höfuð það samkomulag sem gert var í haust og þetta frumvarp byggir á. Þingflokkur Samfylkingarinnar styður allar þær breytingar sem hér voru lagðar fram, bæði frá meiri hluta og minni hluta.

Herra forseti. Ég legg sérstaka áherslu á að hv. þingmenn samþykki þær breytingar sem 2. minni hluti, þ.e. ég, leggur fram. Þær snúast í fyrsta lagi um að tryggja geymd lífeyrisréttinda opinberra starfsmanna en hins vegar að varúðarsjónarmiðum. Þessar breytingar eru í takt við það samkomulag sem gert var í haust og mæta að hluta þeim athugasemdum sem borist hafa nefndinni. Breytingarnar eru mikilvægar til að meiri (Forseti hringir.) sátt skapist um jöfnun lífeyrisréttinda og auka þannig líkurnar á því að heildarsamkomulag við aðila vinnumarkaðarins nái fram um bætt lífskjör í landinu.