146. löggjafarþing — 10. fundur,  21. des. 2016.

kjararáð.

7. mál
[23:02]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Þetta mál hefur verið frá upphafi svolítil gildra, myndi ég segja. Ég met það bara pólitískt að það sé svolítil gildra. Það kemur upp vandamál, það eru kosningar, kjörstjórnir sem sitja líka í kjararáði og sinna þessum málum taka ákvörðun um að hækka laun þingmanna — mér var sagt að hækkunin væri 43% en ég hef verið að tala um 47%, en það er alla vega einhvers staðar á því róli á þessu ári. Að sjálfsögðu ofbýður fólki, samfélaginu, kennarar segja störfum sínum lausum vegna þessa og þingmenn og ráðherrar eru spurðir hvert málið sé, hvað þeir ætli að gera í þessu. Bjarni Benediktsson kemst mjög vel frá því með því að segja: Ég lagði fram frumvarp um kjararáð, það er bara ekki búið að samþykkja það, það er eiginlega minni hlutanum að kenna. Hann leggur það síðan fram aftur, fær aðra með sér á það. Málið er ekki jafn sterkt hvað varðar ákvæðið um að það megi ekki fara umfram almenna launaþróun sem er nákvæmlega það sem kjararáð gerði. Það er ekki jafn sterkt í þessu frumvarpi. Búið er að árétta af nefndinni, það er líklega þess vegna sem hv. framsögumaður ætlar að koma hérna í andsvar, það er búið að árétta af nefndinni eftir að ASÍ og SA komu fyrir nefndina og ráðuneytið — þeir vildu fá áréttinguna inn í lögskýringargögnin sem er búið að gera að vísu. En það var ekki inni, þau sögðu að gott væri að árétta það, það væri ekki jafn sterkt og það var í hinu frumvarpinu. Mögulega er búið að laga það og þá er það gott, en við skulum sjá inn í framtíðina af því að eins og þetta er orðað þarna sýnist mér það vera samt sem áður enn þá veikara, en ókei, kannski er bara rétt að búið sé að árétta þetta í nefndarálitinu.

Kjararáð tók ákvarðanir á kjördag um að hækka laun þingmanna langt umfram almenna launaþróun á markaði. Jafnvel þótt við förum aftur til 2006 er þetta samkvæmt fjármálaráðuneytinu alla vega 13% hækkun umfram almenna launaþróun þannig að kjararáð tók ólöglega ákvörðun. Í lögunum eins og þau standa núna segir að þeir megi ekki í ákvörðunum sínum skapa hættu á að raska kjarasamningum þorra launafólks, sem er klárlega það sem ASÍ og SA sögðu að væri að gerast, að ef Alþingi myndi ekki annars vegar snúa þróuninni við eða hafna þessari þróun eins og ASÍ og SA sögðu. En svo voru þeir sammála um að það væri upplausn á vinnumarkaði í boði í Alþingis.

Nú leikur vafi á hvort þetta ákvæði sé jafn sterkt, en núna er þetta, myndi ég segja, lögbrot og ég mun að öllum líkindum kæra það. Ég er búinn að tala við lögfræðinginn minn aftur og við erum byrjaðir að vinna í því að kæra þessa ákvörðun sem var tekin á kjördag um að hækka laun þingmanna svona mikið.

Sú kæra er náttúrlega ekki jafn sterk ef eitthvað gerist þangað til að lækka þá þessi laun aftur í áttina að almennri þróun á launamarkaði. Ef það myndi gerast væri ég náttúrlega ekki með mikið mál í höndunum af því að þá væri búið að leiðrétta þetta, þá væru þingmenn á endanum komnir á þann stað en væru ekki að fara umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði. Það væri gott. Og það er hægt að gera. Formenn allra flokka, nú get ég ekki sagt ykkur hvað var rætt á forsætisnefndarfundi í dag af því að ákveðinn trúnaður er um það og ég mun athuga hvort ég geti ekki fengið þeim trúnaði létt hvað það varðar, en ég get að minnsta kosti sagt ykkur hvað formaður okkar skrifaði undir í bréfi til forsætisnefndar með formönnum allra annarra flokka. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Alþingi hefur nú til umfjöllunar frumvarp til laga um kjararáð. Í því felst veigamikil breyting á því hverjir eiga að heyra undir ráðið, svo og á störfum þess að öðru leyti.

Neðangreindir formenn flokka beina því til forsætisnefndar Alþingis að nefndin taki jafnframt til endurskoðunar reglur um þingfararkostnað, þ.e. starfstengdar greiðslur til alþingismanna, sem eru fastar mánaðarlegar greiðslur, í ljósi gagnrýni sem fram hefur komið á kjör þingmanna á opinberum vettvangi eftir úrskurð kjararáðs um laun þjóðkjörinna fulltrúa frá 30. okt. sl.“

Formenn allra flokkanna vísa því til forsætisnefndar að bregðast við þessari stöðu, m.a. að forsætisnefnd gæti tekið til endurskoðunar reglur um þingfararkostnað o.s.frv.

Svo held ég áfram, með leyfi forseta:

„Vonast er til þess að þessar aðgerðir, þ.e. frumvarpið og breytingar á reglum um starfstengdar greiðslur alþingismanna, muni reynast grundvöllur almennrar sáttar um starfskjör alþingismanna.“

Þetta væri ein leið. Eins og menn hafa sagt er ekki gott að alþingismenn grípi með lögum inn í úrskurð kjararáðs. Meginreglan er að það sé ekki gott. Aftur á móti, á meðan kjararáð ákveður laun þingmanna eru það þingmenn sjálfir í forsætisnefnd sem ákveða önnur kjör þingmanna. Það er alveg ljóst, og við vitum það og alveg hægt að fá staðfest að á þeim tíma þegar kjararáð var ekki að hækka laun þingmanna og þeir voru undir almennri launaþróun voru alls konar kjör ákveðin í forsætisnefnd, ný kjör sett inn og þau hækkuð þannig að heildarígildi launa og kjara var hærra út af því að ekki var verið að hækka launin hjá þingmönnum. Kjörin voru hækkuð í forsætisnefnd þannig að forsætisnefnd getur réttilega brugðist við.

Og hvernig væri rétt að bregðast við? Alþingi samþykkti lög á sínum tíma um að ekki mætti fara með laun þingmanna umfram almenna launaþróun á vinnumarkaði. Kjararáð tók ákvörðun sem m.a. fjármálaráðuneytið sagði í sínum tölum að hefði farið 13% umfram. Ef Alþingi er samkvæmt sjálfu sér, samkvæmt þeim lögum sem verið er að breyta núna og verið að setja inn að við eigum að vera innan almennrar launaþróunar, getur nákvæmlega þessi sama forsætisnefnd lækkað þessi kjör sem voru hækkuð á sínum tíma út af því að launin fóru ekki upp. Núna eru launin farin upp og þá er hægt að lækka kjörin þannig að heildarlaunakjör þingmanna fari ekki upp fyrir almenna launaþróun á vinnumarkaði. Það væri sómi að því ef forsætisnefnd Alþingis myndi gera það hið fyrsta.