146. löggjafarþing — 28. fundur,  9. feb. 2017.

fyrirtækjaskrá.

116. mál
[16:15]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, ég held að samfélagslegur gróði af þeim upplýsingum sem opnaðar eru með þessum hætti verði alltaf margfaldur á við þann kostnað sem við finnum fyrir í fjárlögum það ár sem gjaldfrelsið er tekið upp. Það ætti því ekki að svíða sérstaklega mikið undan því.

Ég þakka þingmanninum líka fyrir að nefna orðabókina af því að þar erum við aftur með frá svipuðum tíma og þegar kortasafn Landmælinga var einkavætt. Sem dæmi um að hið opinbera selji frá sér sameiginleg gæði má nefna Orðabók Menningarsjóðs, sem hafði árum saman verið unnin sameiginlega af hinu opinbera þjóðinni til góða, en var seld þegar ríkið mátti ekki standa í neinu sem hægt væri að senda út í bæ til frekari vinnslu. Ég er ekki að segja að sú orðabók sem þeir einkaaðilar hafa síðan unnið og gefið út sé slæm, en hún er ekki aðgengileg á sama hátt og opinber orðabók í eigu þjóðarinnar gæti verið.

Í því sambandi er síðan vert að nefna hugmyndir sem birtast í stefnuyfirlýsingu núverandi ríkisstjórnar varðandi námsbækur. Við erum farin að heyra sama sönginn um að ríkið megi ekki standa í rekstri sem hægt væri að sjá fyrir sér að einkaaðilar gætu sinnt. Ég sé það ekki alveg fyrir mér hvernig einkaaðilar ætla að standa í námsbókaútgáfu í litlum greinum þar sem skipta þarf oft um bækur. Ég held að flóran yrði fátækari ef markaðsöflin væru farin að ráða því hvað gefið væri út til grunnskóla- og framhaldsskólanema. (Forseti hringir.) Ég bíð þess bara spenntur að geta tekið þá umræðu þegar þar að kemur.