146. löggjafarþing — 31. fundur,  23. feb. 2017.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

106. mál
[15:23]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Kærar þakkir. Jú, það er greinilegt að við hv. þm. Oddný Harðardóttir erum hjartanlega sammála um hvað sé markmið þessa frumvarps. Í umsögnum sem koma frá Barnaheillum, UNICEF og umboðsmanni barna kemur fram að þau telja að aukinn sýnileiki muni auka áfengisneyslu og það muni hafa verulega neikvæðar afleiðingar í för með sér fyrir heilsu, þroska og öryggi barna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, og ég held að ég viti hvert svarið verður: Er hún ekki hjartanlega sammála mér um að þessi varnaðarorð séu í fullu gildi? Hefur hún ekki áhyggjur af líðan og þroska þeirra barna, því að við höfum nú svipaðan bakgrunn og höfum báðar starfað með börnum í fyrri störfum okkar, ef afleiðingarnar verða eins og varað er við í umsögnum?