146. löggjafarþing — 41. fundur,  8. mars 2017.

lokafjárlög 2015.

8. mál
[17:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (Vg):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja mál mitt á því að þakka hv. formanni fjárlaganefndar, Haraldi Benediktssyni, fyrir að sigla þessu verkefni í höfn og standa þar með við samkomulag sem gert var við afgreiðslu fjárlaga hér fyrir jól. Það er spurning hvort hann taki flokksbróður sinn, hæstv. samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, í námskeið í því hvernig samkomulag heldur og hvernig það er virt, því að ekki virðist bera allt of mikið á þeim sáttahug hjá hæstv. ráðherra, sem birtist hjá hv. þingmanni þegar kemur að samgönguáætlun, sem var að sönnu hluti af þessu sama samkomulagi fyrir jól.

Það kemur nokkuð bratt á mann að hér séum við ræða viðbótarútgjöld upp á rúma 6 milljarða, eða sem nemur eins og einni heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins á ári. Það eru útgjöld sem eru bara til þess að greiða niður uppsafnaðan halla á ríkisstofnunum. Mætti þá í raun segja að hér sé á vissan hátt viðurkennt að margar ef ekki allar af þessum stofnunum hafi verið reknar með viðvarandi vanfjármögnun síðustu ár. Stærsti liðurinn á þessum lista er eðli málsins samkvæmt Landspítalinn. Hann ber ábyrgð á um það bil helmingi þessara rúmu 6 milljarða. Það veit hvert mannsbarn að þar hefur verið skorið við nögl í fjárveitingum frá því löngu fyrir hrun, eins og í heilbrigðiskerfinu öllu. Það kemur ekki heldur á óvart að mikið af þessum viðbótarfjármunum fari í það að klippa af uppsafnaðan halla á heilbrigðisstofnunum um allt land, sem reknar hafa verið með of litlu fé of lengi.

Þá má alveg líta til lögreglustjóraembættanna sem hafa þurft að takast á við margföldun í álagi, sérstaklega yfir sumarmánuðina, vegna aukins straums ferðamanna, án þess að hafa fengið það að fullu bætt í fjárlögum frá ári til árs. Nú er sá halli að baki. Og eins sýslumannsembættin sem voru sameinuð fyrir nokkru; af því hlaust meiri kostnaður en gert hafði verið ráð fyrir og við því var ekki brugðist fyrr en nú.

Hv. þm. Björn Leví Gunnarsson fór aðeins inn á það hvernig nýja kerfið, samkvæmt lögum um opinber fjármál, mun breyta því ferli sem við vinnum í hér. Maður verður að vona að svartsýnustu spár standist ekki varðandi það ferli, að lög um opinber fjármál muni ekki setja fjárlög hvers árs í spennitreyju, aðhaldsstefnu, því að við viljum ekki standa í þeim sporum eftir nokkur ár að rétt undir lok árs komi hver stofnunin á fætur annarri niðurlút vegna áralangs uppsafnaðs halla vegna þess að fjárlög hafi ekki tekið eðlilegt tillit til útgjalda stofnana.

Ég vona að um leið og við komum þessum rekstrarhalla stofnananna út úr myndinni munum við ekki þurfa að horfa upp á framtíð þar sem hann safnast bara upp að nýju heldur muni þingið hér á næstu árum halda áfram að sníða stofnunum stakk eftir vexti þannig að þær geti sinnt hlutverki sínu með sóma.