146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

samningur við Klínikina.

[10:51]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Frú forseti. Hv. þingmaður, það er mikilvægt að tala skýrt. Þegar spurt er um þessa starfsemi má velta fyrir sér nákvæmlega hvað átt er við. Það er skýrt í rammasamningi við Læknafélag Reykjavíkur hvaða starfsemi heyrir þar undir. Rekstur á margra daga legudeild heyrir ekki þar undir. Til slíks þyrfti sérstaka samninga. Heilbrigðisráðuneytið hefur gert sérstaka samninga um legu en ekki á sjúkradeildum, eins og ég hef áður sagt.

Heilbrigðisþjónusta er mjög flókið verkefni. Við höfum falið ákveðna hluti, jafnvel einfaldari aðgerðir, aðilum sem reka sig á eigin forsendum á eigin stofum, sérfræðingum o.s.frv. Ég tel að það sé ágætur hluti af íslensku heilbrigðiskerfi. En ég sé ekki að það yrði til heilla að dreifa kröftum (Forseti hringir.) heilbrigðiskerfisins með því að fela í auknum mæli flóknari og meiri sjúkrahúsþjónustu aðilum annars staðar en á þeim sjúkrahúsum og spítölum sem fyrir eru.