146. löggjafarþing — 47. fundur,  23. mars 2017.

fjarfundir á vegum ráðuneyta og notkun fjarfundabúnaðar.

273. mál
[15:36]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka framsögumanni fyrir málið og segi við hana einmitt eins og hún sagði að það væri löngu tímabært. Ég hef velt fyrir mér í gegnum þau ár sem ég hef setið á þingi, frá því 2013, hafandi komið inn í fjárlaganefnd áður, og þar áður meira að segja sem sveitarstjórnarfulltrúi utan af landi að vetri til þegar verið var að vinna að fjárlagagerð, að í boði voru 15 mínútur, 15 mínútur með fjárlaganefnd til að reyna að koma málum sínum á framfæri.

Við vorum fyrsta sveitarfélagið, Fjallabyggð, sem óskaði eftir því að fá fjarfund með fjárlaganefnd. Það varð smárekistefna. Svo var orðið við því. Í framhaldinu fóru nokkur sveitarfélög að nýta sér þetta, sérstaklega þau sem eiga um lengri veg að sækja og það er ósköp skiljanlegt því að það er ekki bara kostnaðarsamt, heldur fer í þetta gríðarlegur tími. Fyrir íbúa heiman frá mér þarf kannski ekki nema dagurinn að fara í það, en ef maður er staddur vestur á fjörðum fara jafnvel í þetta tveir heilir dagar, gisting og ýmis annar kostnaður sem til fellur, sem skiptir auðvitað máli. Margt annað væri hægt að gera á stuttum tíma, þótt vissulega sé það svo með þær stofnanir og sveitarfélög sem koma hingað og hitta t.d. fjárlaganefnd, að þau reyna kannski að finna tíma með ráðuneytum í framhaldinu og allt það. En það er nú eiginlega bara til þess, af því að slíkir fundir eru nauðsynlegir að mati sveitarfélaganna, að eiga beint samband við þá sem fjárveitingavaldið hafa.

Þar sem ég nefndi sveitarfélag mitt vil ég segja að þegar við sameinuðumst, árið 2006, Siglufjörður og Ólafsfjörður, voru göngin ekki til. Það var yfir lágheiðina að fara, sem ekki öllum þykir spennandi. Þetta er svona vegur sem helst útlendingar vilja fara í dag því að áhugavert er að keyra hann. En það var þannig að um leið og fyrstu snjóar komu var bara lokað. Eitt af því fyrsta sem sameinað sveitarfélag gerði var að kaupa sér fjarfundabúnað. Allir fundir nefnda og ráða voru fjarfundir, en hins vegar hittust sveitarstjórnarmenn á fundum ævinlega fýsískt. Þá keyrðum við nokkur hundruð kílómetra um lengri veg því að þeir voru haldnir til skiptis í bæjarkjörnunum. En það var svo sem á sig leggjandi og skynsamlegt. Oft og tíðum verður fólk að hittast á rauntíma — ekki á rauntíma heldur fýsískt. En hægt er að gera svo miklu meira af því að nota fjarfundabúnað. Þetta er praktískt og þetta er jafnræðissjónarmið, veitir öllum miklu betra aðgengi að stjórnsýslunni. Það á ekki að vera svona flókið.

Það er svolítið sérstakt að þingið er frekar vanbúið þegar kemur að fjarfundum. Það hefur maður séð, þegar við vorum t.d. að byrja að funda á síðasta kjörtímabili, hvernig staðan var þá. Það hefur vissulega lagast frá því sem var, en betur má ef duga skal. Sérstaklega þá í ráðuneytunum sjálfum. Það er þar sem þarf að taka á fyrst og fremst þannig að allir, heilbrigðisstarfsfólk og aðrir slíkir sem þurfa að eiga samtal beint við ráðherra eða við þessar stofnanir geti gert það án þess að mikill tími fari í að eiga einhvern stuttan fund.

Ég ætla ekki að hafa lengra mál um þetta. Mér finnst þetta bara hið besta mál og get eiginlega ekki séð hvers vegna ekki ætti að vera hægt að afgreiða það því að það er ekki slíkur kostnaður sem þessu fylgir, held ég. Ég mundi vilja sjá að innleiðing á þessu nýja verklagi yrði raungerð strax í haust helst, en ef ekki þá næstu áramót, eitthvað slíkt, því að auðvitað þurfa allir aðlögun og allt það. En ég held að þetta ætti að vera hægt að innleiða á tiltölulega skömmum tíma.