146. löggjafarþing — 60. fundur,  26. apr. 2017.

sveitarstjórnarlög.

375. mál
[17:35]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Jón Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er auðvitað þannig og það vita þeir sem fylgst hafa með þessu máli að þetta er umdeilt mál. Það kemur m.a. fram í umsögn Reykjavíkurborgar, sem ég vitnaði til í ræðu minni áðan.

Málið hefur verið umdeilt, að setja það fram með þeim hætti sem gert var í lögunum. Nú er þetta vald bara í höndum meiri hluta borgarstjórnar, hvað þau vilja gera í þessu máli. Málið virðist vera ákaflega viðkvæmt, sérstaklega fyrir þingmenn Vinstri grænna. Það er alveg rétt að ég hef einn getað séð um málflutning fyrir þetta mál af minni hálfu. Þetta er auðvitað ríkisstjórnarmál, hefur fengið afgreiðslu í öllum þingflokkum. Það má vel vera að það séu fyrirvarar við eitthvað í því einhvers staðar, ég hef ekki upplýsingar um það.

En málið fjallar fyrst og fremst um aukið lýðræði til sveitarfélaganna, að þau taki þessar ákvarðanir sjálf. Hv. þingmaður var hissa á því að Kópavogsbær hefði ekki stigið það skref að fjölga fulltrúum. Hann vill kannski setja það í lög. Ætli það yrði nú ekki gert ef ákallið um það yrði mjög sterkt meðal íbúa Kópavogs, að þeir teldu t.d. að fjölga þyrfti umtalsvert í bæjarstjórninni þar? Ætli það yrði þá ekki hlustað á þær raddir? Ég geri ráð fyrir því.

Hér eru haldin íbúaþing og íbúafundir úti um alla borg og í sveitarfélögum. Við höfum verið að færa verkefni í auknum mæli til sveitarfélaga, einmitt af því að við teljum að návígið við borgarana í sveitarfélögunum sé hagfellt að því leyti að það sé betra að ákveðin verkefni séu þar sem návígið við bæjarfulltrúa er meira. Og ætli þeir séu þá ekki betur í stakk búnir en við alþingismenn til að taka ákvörðun um hvort tilefni sé til að fjölga kjörnum fulltrúum á sveitarstjórnarstiginu?