146. löggjafarþing — 61. fundur,  2. maí 2017.

rannsókn á fjárfestingarleið Seðlabanka Íslands.

331. mál
[23:41]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni ræðuna og framlagningu málsins. Ég ætla ekki að dvelja lengi við inntak tillögunnar heldur vil sem fulltrúi í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd velta því upp við hv. þingmann að nú höfum við á Alþingi sett saman í sameiningu lög um nefndir og við höfum rúmlega hálfan metra úr að vinna af afurðum slíkra rannsókna af ýmsu tilefni, bæði er það stóra rannsóknin sem var hér um fall bankanna og síðan tiltekin rannsóknarskýrsla sem hv. þingmaður fór yfir í ræðu sinni. Ég held að mikilvægt sé að við stöldrum við það mjög reglulega hversu gagnleg slík nálgun er sem ein af mörgum leiðum okkar á Alþingi til þess að rækja eftirlitsskyldu okkar gagnvart framkvæmdarvaldinu á hverjum tíma. Við tókum til að mynda við þyngsta pakkanum, þ.e. stóru rannsóknarskýrslunni, öllum bindunum, töluvert innblásin og fjölluðum um það í nefndum í framhaldinu o.s.frv. og samþykktum 63:0 alls konar áform um að breyta og bæta vinnubrögð okkar og laga allt til framtíðar. Sumt af því hefur gerst en annað alls ekki.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort flutningsmenn málsins, þingmenn Pírata, séu fullvissir um að þetta sé besta leiðin að fara til að freista þess að ná einhvers konar botni í þessa sannarlega mikilvægu spurningu.