146. löggjafarþing — 66. fundur,  16. maí 2017.

aðgerðir gegn fátækt.

[14:09]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa mikilvægu umræðu. Ég held að við getum öll sammælst um að fátækt, hversu lítil sem hún kann að mælast, er of mikil fátækt í samfélagi okkar og við eigum örugglega öll auðvelt með að sameinast um aðgerðir gegn þeirri vá.

Það sem skiptir auðvitað miklu máli í þessu samhengi er hver þróunin hefur verið hjá okkur. Á alla mælikvarða stöndum við ákaflega vel. Kaupmáttur hefur aukist verulega á undanförnum árum. Kaupmáttur lægstu launa hefur aukist umfram almennan kaupmátt og hefur kaupmáttur bóta að sama skapi fylgt lægstu launum að undanförnu. Markmiðið er að um næstu áramót hækki lágmarksfjárhæðir eða lágmarkstekjutryggingar bæði ellilífeyris og örorkulífeyris í 300 þús. kr. eins og lágmarkslaun á vinnumarkaði. Það skiptir allt saman gríðarlega miklu máli í því að bæta stöðu þessa fátækasta hóps.

Það er hins vegar alveg rétt sem málshefjandi bendir á að tvær helstu skýribreyturnar þegar kemur að fátækt eru einmitt heilsufar og húsnæði og auðvitað atvinnustig. Þar er mikilvægt að grípa til aðgerða. Þar er rétt að benda á annars vegar aðgerðir stjórnvalda, bæði þær sem þegar hefur verið gripið til og þær sem fyrirhugaðar eru varðandi húsnæðismál, þ.e. uppbyggingu félagslegs íbúðakerfis eða svokallaðra leiguíbúða sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að framlengja fjárveitingar til til þess að auka enn frekar við þá uppbyggingu. Sú uppbygging hófst með tilkomu kjarasamninga á vinnumarkaði 2015 og stendur til að halda áfram út gildistíma þeirrar ríkisfjármálaáætlunar sem liggur nú fyrir þinginu þannig að hér verði byggðar á bilinu 300–600 íbúðir á ári inn í það kerfi. Ég held að það sé mjög mikilvægt að huga að framtíðaruppbyggingu slíks kerfis. Ég tek undir þau orð sem hér hafa verið höfð uppi að það voru grundvallarmistök þegar félagslegt húsnæði var selt út úr því kerfi sem hafði verið byggt upp á sínum tíma. Slíkt kerfi þarf ávallt að vera fyrir hendi.

Það þarf líka að huga að því hvernig við styðjum við tekjulægstu einstaklingana á húsnæðismarkaði bæði í leigu og kaupum, ekki síst við kaup af því að við sjáum einmitt að það er hópurinn sem er á leigumarkaði sem á hvað erfiðast uppdráttar, sérstaklega ef einhver misbrestur kemur upp í tekjum, tímabundið atvinnuleysi, tímabundinn heilsubrestur. Slíkt kemur mun harðar niður á fólki sem býr á leigumarkaði en fólki sem býr í eigin húsnæði. Þess vegna held ég að sú áhersla sem verið hefur á aukna hlutdeild leigumarkaðar á húsnæðismarkaði sé misráðin. Þótt vissulega þurfi að vera til sveigjanleg úrræði og valkvæð úrræði þá breytir það því ekki að sú eignastefna sem hér hefur verið uppi árum og áratugum saman hefur á endanum skilað umtalsverðum sparnaði og sterkari stöðu fólks til að takast á við sveiflur í afkomu sinni frá einum tíma til annars. Þó svo að vissulega sé rétt og mikilvægt að hafa sveigjanleikann fyrir hendi þá er mjög mikilvægt að gleyma því ekki hversu mikill varnagli felst á endanum í eigin húsnæði. Við sjáum t.d. þegar kemur að eldri borgurum hversu mikill munur er á stöðu þeirra sem búa í eigin húsnæði og þeirra sem búa enn á leigumarkaði á þeim tímapunkti.

Í alþjóðlegum samanburði stöndum við vel þegar kemur að mælikvörðum fátæktar. Við stöndum vel þegar kemur að mælikvarða jöfnuðar. Við höfum búið við mikið hagsældarskeið á undanförnum árum. Á þessu hagsældarskeiði, með þessari miklu kaupmáttaraukningu, hefur jöfnuður á hinn hefðbundna mælikvarða, Gini-stuðulinn, heldur aukist og er hvað mestur hér, ef ekki sá mesti innan ríkja OECD. Að sama skapi hefur þeim sem búa við sárafátækt fækkað, en það er auðvitað alltaf svo að hvert það barn sem býr við sárafátækt, félagslega einangrun, er einu barni of mikið, eins og Barnaheill hafa að sínu slagorði. Um það getum við öll verið sammála.

Þegar við horfum á þætti utan húsnæðismarkaðarins er nýtt greiðsluþátttökukerfi afar mikilvægt. Það kerfi þarf að þróa áfram og koma í veg fyrir að heilsubrestur, sem er önnur helsta skýribreyta fátæktar, geti leitt til svo alvarlegra efnahagslegra skakkafalla fyrir einstaklinga og fjölskyldur. Það skiptir gríðarlega miklu máli að vel takist til við innleiðingu nýs greiðsluþátttökukerfis, en það skiptir líka miklu að hér skapist góð samstaða um að þróa það kerfi áfram. Við hljótum að vilja láta það ná yfir heildarkostnað heilbrigðiskerfisins, bæði þegar kemur að líkamlegum kvillum og andlegum.

Hér hef ég tæpt á því helsta og kem kannski að öðru síðar í þessari umræðu.