146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

störf þingsins.

[10:04]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Virðulegi forseti. Í Fréttablaðinu í dag er tilvitnun í hv. þm. Birgi Ármannsson þar sem hann segir, með leyfi forseta:

„Það er annaðhvort meiri hluti fyrir málum eða ekki. Ef það er meiri hluti, þá breytir í sjálfu sér ekki hvort það er eins manns meiri hluti eða ekki. … En þar sem er ágreiningur verður bara afl atkvæða að skera úr.“

Eins og ég þreytist seint á að benda á er núverandi ríkisstjórn með minni hluta atkvæða úr kosningum. Það er mér því ómögulegt að skilja hvernig hægt er að tala um meiri hluta á þingi eins og hann geti skorið úr einhverju með afli atkvæða sinna þegar sá hinn sami meiri hluti er ekki með það afl atkvæða frá kjósendum á bak við sig.

Af hverju var það ekki meiri hluti kjósenda sem skar úr um hvaða flokkar gætu myndað meirihlutastjórn? Af hverju getur þingmaðurinn sem er einungis bundinn sannfæringu sinni sagt að meiri hlutinn virki inni á þingi en ekki í almennum kosningum? Þetta einkennir dálítið upplifun mína af störfum þingsins. Fólk hristir höfuðið út af ýmsum málum en samþykkir þau bara samt. Hvers konar sannfæring er það? Ef ríkisstjórnin leggur fram lélegt mál á þingi verður bara að henda því til baka. Þingið er ekki stimpilstofnun fyrir ríkisstjórnina. Þingmenn eru hérna á eigin forsendum, í eigin sannfæringu og í umboði þjóðarinnar.

Mér leikur því forvitni á að vita hvað umboð þjóðarinnar þýðir fyrir ykkur, þingmenn ríkisstjórnarinnar. Hversu lítill þarf minni hluti atkvæða að vera í kosningum til að lýðræðiskenndin láti í ykkur heyra? Eitt atkvæði? Þúsund atkvæði? 1.862 atkvæði? Meira? Haggast samviska ykkar ekki neitt? Friðar gallað kosningakerfi samvisku ykkar? Svona eru leikreglurnar bara, við unnum leikinn þótt við höfum skorað færri stig.

Afsakið að ég gagnrýni, en er ekki vitlaust gefið? Er leikurinn ekki á heimavelli með heimadómara? Skilaði leikurinn ekki Sjálfstæðisflokknum þremur fleiri þingmönnum en atkvæði gáfu tilefni til? Þremur þingmönnum sem hefðu átt að fara til flokka sem í staðinn komust ekki inn á þing. Hvers konar leikur er það, að (Forseti hringir.) skilja út undan?

Hugleiðið þessi skilaboð í sumar. Er Alþingi hús þar sem samviskan er skilin eftir við útidyrnar?


Efnisorð er vísa í ræðuna