146. löggjafarþing — 75. fundur,  30. maí 2017.

uppbygging að Hrauni í Öxnadal.

193. mál
[18:54]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Vilhjálmur Árnason) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu frá meiri hluta allsherjar- og menntamálanefndar um tillögu til þingsályktunar um uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal.

Nefndin fjallaði um málið og fór yfir umsagnir sem um það hafa borist. Þetta mál hefur verið flutt áður en náði þá ekki þinglegri meðferð. Með tillögunni er lagt til að Alþingi álykti að fela mennta- og menningarmálaráðherra að stuðla að uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal til að heiðra minningu þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar. Ráðuneytið leiti í því skyni eftir samstarfi við eiganda jarðarinnar Hrauns í Öxnadal um fjármögnun og framkvæmd uppbyggingarinnar svo og um framtíðarskipulag starfsemi til heiðurs Jónasi. Nánari útfærsla verði í höndum ráðherra sem kynni Alþingi áætlun í þessa veru á haustþingi 2017.

Á fundum nefndarinnar komu fram sjónarmið um að þrátt fyrir þá ríku áherslu sem alla tíð hefur verið lögð á bókmenntir hjá þjóðinni og vegur þungt í ímynd hennar séu söfn og setur um rithöfunda og skáld á Íslandi fá miðað við önnur svæði á Norðurlöndum og í Evrópu. Reykjavík er bókmenntaborg UNESCO og nýtur góðs af því. Meiri hlutinn tekur undir að uppbygging menningarsetra á landsbyggðinni sé mikilvægur liður í að byggja upp sögu- og menningartengda ferðaþjónustu sem stuðlar að betri dreifingu ferðamanna um landið og miðlun menningararfs til erlendra gesta.

Á fundum var einnig rætt að staðsetning Jónasarseturs að Hrauni sé ekki aðeins í ægifagurri náttúru heldur sé hún vegna nálægðar við þéttbýli kjörin til að halda uppi lifandi safna- og fræðslustarfi og heiðra minningu þjóðskáldsins Jónasar Hallgrímssonar, eins af merkustu skáldum íslenskra bókmennta, sem var þar að auki merkur náttúrufræðingur. Fram kom fyrir nefndinni að svæðið hefði auk þjóðmenningarlegs og sjónræns gildis hátt verndargildi á landsvísu, þ.e. fræðslu- og vísindagildi, en hentaði einnig vel til útivistar. Meiri hlutinn tekur fram að jörðin Hraun í Öxnadal var friðlýst sem fólkvangur af umhverfisráðherra árið 2007 sem var liður í að heiðra minningu Jónasar en fyrir liggur að bæta eigi aðgengi almennings þar með stikuðum leiðum og fræðsluskiltum.

Á fundum kom fram að með áframhaldandi uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal sem menningar-, fræðslu- og rannsóknarsetri væri Jónasi sýndur þjóðarsómi líkt og Snorra Sturlusyni í Snorrastofu, Gunnari Gunnarssyni á Skriðuklaustri, Halldóri Laxness á Gljúfrasteini og Þórbergi Þórðarsyni á Þórbergssetri. Fyrir liggur að án aðkomu ríkisins að rekstri og áframhaldandi uppbyggingu stendur menningarfélagið Hraun í Öxnadal ekki undir því að heiðra arfleifð Jónasar Hallgrímssonar sem honum ber. Meiri hlutinn bendir á að í ár eru liðin 210 ár frá fæðingu Jónasar Hallgrímssonar og því fari vel á því að fagna afmæli hans og heiðra minningu hans með stofnun Jónasarseturs að Hrauni í Öxnadal og telur það falla vel að ásýnd þjóðarinnar sem bókmenntaþjóðar á heimsvísu.

Meiri hlutinn telur mikilvægt í ljósi efnis málsins að mennta- og menningarmálaráðherra og umhverfis- og auðlindaráðherra verði í sameiningu falið að stuðla að uppbyggingu að Hrauni í Öxnadal til að heiðra minningu þjóðskáldsins og náttúrufræðingsins Jónasar Hallgrímssonar og efla bókmennta- og náttúruverndarstarf þar.

Meiri hlutinn leggur því til að þingsályktunartillagan verði samþykkt með þeirri breytingu að á eftir orðinu „mennta- og menningarmálaráðherra“ í 1. málslið tillögugreinarinnar komi: og umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í stað orðsins „Ráðuneytið“ í 2. málslið tillögugreinarinnar komi: Ráðuneytin.

Undir þetta álit skrifa framsögumaður nefndarinnar, hv. þm. Valgerður Gunnarsdóttir, sá sem hér stendur, Vilhjálmur Árnason, og hv. þingmenn Nichole Leigh Mosty, Eygló Harðardóttir, Iðunn Garðarsdóttir og Pawel Bartoszek, með fyrirvara. Hv. þm. Guðjón S. Brjánsson áheyrnarfulltrúi í nefndinni er samþykkur þessu.