147. löggjafarþing — 6. fundur,  26. sept. 2017.

almenn hegningarlög.

111. mál
[15:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þingmanninum til upplýsingar var það svoleiðis þegar við vorum að hefja hér fyrstu fundahöld um þinglok að nefndasvið Alþingis var að byrja að draga upp útlínur að frumvarpi sem þessu vegna þess að við höfðum ekki séð neitt frumvarp enn frá hæstv. dómsmálaráðherra. Því hafði ekki verið dreift. Við höfðum ekki séð hvernig það liti út þótt það sé síðan það sem hér er lagt til grundvallar. Þannig að umræðan var á því stigi að verið var að ræða hvort sá þrýstingur, sem hv. þingmaður og ég erum sammála um að þurfi að vera í þessum gögnum, ætti betur heima í greinargerð eða bráðabirgðaákvæði. Mín afstaða var sú að það væri í bráðabirgðaákvæði. Það varð ekki niðurstaðan. Síðan leggur ráðherrann til að þetta sé bara í greinargerðinni. Það er bara listað upp hvað þurfi að skoða að þessum lögum samþykktum.

Ég ætla ekki að nefna dagsetningu. Ég get ekki skotið á neina dagsetningu út í loftið. Ég myndi vilja heyra frá ráðuneytinu um hvað sé raunhæft í því. Það er ekki boðlegt að sá tími sé langur. Ég myndi vilja hafa þann ramma frekar þrengri en víðari. Ef ráðuneytið nefndi einhverja dagsetningu myndi ég vera frekar nær deginum í dag en fjær honum til að koma til móts við óskir ráðuneytisins í þeim efnum.